Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í Hong Kong í dag en hundruð þúsunda mótmæltu lagafrumvarpi sem talið er að auðveldi kínverskum yfirvöldum að herja á pólitíska andstæðinga sína.
Heimilar frumvarpið framsal brotamanna frá Hong Kong til meginlands Kína.
Lögregla beitti kylfum og piparúða gegn mótmælendum en þeir segja frumvarpið vera upphafið að endalokum Hong Kong eins og það er í dag.
Samkvæmt frétt AFP hentu mótmælendur flöskum í átt að lögreglu.
Hong Kong var áður undir breskri stjórn, en frá 1997 hefur landið verið hluti af Kína, þó undir meginreglunni „eitt land, tvö kerfi.“ Hong Kong hefur gert framsalssamninga við 20 ríki, meðal annars Bretland og Bandaríkin, en enginn slíkur samningur er í gangi við Kína, þrátt fyrir viðræður þess efnis undanfarna tvo áratugi.