Mótmælendur í Hong Kong hafa boðað til nýrra mótmæla á miðvikudaginn, en í gær gengu mörg hundruð þúsund mótmælendur um götur borgarinnar til að mótmæla lagafrumvarpi sem talið er að auðveldi kínverskum yfirvöldum að herja á pólitíska andstæðinga sína. Heimilar frumvarpið framsal brotamanna frá Hong Kong til meginlands Kína.
Ráðamenn í Hong Kong hafa sagt að fjöldi varnagla sé í lagafrumvarpinu sem komi í veg fyrir að hægt verði að óska eftir framsali meðal annars á grundvelli trúar- eða stjórnmálaskoðana. Þá muni dómarar í Hong Kong alltaf eiga lokaorðið í hverju máli fyrir sig.
Mótmælendur telja hins vegar að með þessu sé verið að grafa undar réttarríkinu í Hong Kong, en þrátt fyrir að borgin sem í raun hluti af Kína, þá gilda mismunandi lög og reglur á þessum tveimur stöðum.
Stuttu áður en tilkynnt var um ný mótmæli hafði Carrie Lam, æðsti leiðtogi Hong Kong, neitað að draga frumvarpið til baka. Sagði hún að þingið myndi taka málið til umræðu og neitaði að fresta því eða draga það til baka.
Ákvörðun Lam setur stjórn hennar í eldlínuna og má búast meðal annars við mótmælum fyrir utan þinghúsið í vikunni. Sögðu mótmælendur í gær að hátt í ein milljón hafi mætt á mótmælin, en það gerir þau að stærstu mótmælum borgarinnar í yfir þrjá áratugi.