Fyrir skömmu tókst óprúttnum aðila að hakka sig inn í tölvugeymslur breska tónlistarmannsins Thom Yorke, söngvara og aðallagahöfundar Radiohead. Þar tókst hakkaranum að hafa á brott 18 klst. af óútgefnu efni og skissum og krafðist 150 þúsund dollara í lausnargjald gegn því að skila efninu.
Skemmst er frá því að segja að Yorke greiddi ekki lausnargjaldið og í síðustu viku lak allt þetta efni á netið, hörðustu aðdáendum sveitarinnar líklega til mikillar ánægju. Um var að ræða hugmyndavinnu og hráar upptökur gerðar á mini-disk, frá tímabilinu þegar Yorke ásamt félögum sínum í Radiohead vann að gerð plötunnar OK Computer frá árinu 1997.
Í dag gaf Radiohead efnið opinberlega út á Bandcamp og með því að greiða 18 dollara getur fólk komist yfir það en allur ágóði rennur til Extinction Rebellion sem eru samtök aðgerðasinna sem berjast fyrir að mannkynið horfist í augu við áhrifin sem það hefur á lífríki jarðar og grípi til aðgerða.
Í tilkynningu Yorke kemur fram að efnið hafi verið unnið frá árunum 1995-1998, það sé mikið af því og það geti varla talist nema hóflega áhugavert. Fólk geti rennt yfir það þar til því fari að leiðast og finni sér annað að gera.
Í ljósi þess að OK Computer er almennt talin ein besta og áhrifamesta rokkplata sögunnar eru þeir þó eflaust margir sem finnst innsýnin sem lekinn gefur inn í hvernig hugmyndavinna hjá Yorke fer fram, afar áhugaverð. Hefur honum til að mynda verið lýst sem jafngildi þess að komast yfir skissur og minnisblöð listamanna á borð við Leaonardo da Vinci.