Yfirvöld í Hong Kong lokuðu í dag ríkisstofnunum og skrifstofum í fjármálahverfinu, eftir að í gær kom til mesta ofbeldis í tengslum við mótmæli í borginni sem orðið hefur í áratugi. BBC segir mun færri mótmælendur þó hafa safnast saman við byggingar heimastjórnarinnar í dag, en í gær skaut lögregla gúmmíkúlum og úðaði táragasi að mótmælendum.
Hefur fólkið komið saman til að mótmæla áformum stjórnvalda um að heimila framsal brotamanna frá sjálfstjórnarsvæðinu til meginlands Kína. Heimastjórnin hefur þó ekki bakkað með þessi áform sín þrátt fyrir víðtæka óánægju meðal íbúa.
Upphaflega stóð til að önnur umræða um þetta umdeilda frumvarp færi fram í gær, en tugir þúsunda komu þá saman til að mótmæla áformum stjórnvalda og lokuðu götum í næsta nágrenni stjórnarbyggingarinnar og skarst í hart milli óeirðalögreglu og mótmælenda. Löggjafarþing Hong Kong seinkaði í kjölfarið annarri umræðu frumvarpsins og er óvíst hvenær hún mun fara fram. Segir BBC þó búist við að það fjölgi í hópi mótmælenda á ný er það gerist.
Hafa mannréttindasamtökin Human Rights Watch sakað lögreglu um að beita „óhóflegu valdi“ gegn mótmælendum. Segir BBC 72 á aldrinum 15-66 ára hafa særst í mótmælunum og er ástand tveggja þeirra alvarlegt. Þá særðist 21 lögreglumaður og þurftu níu þeirra aðhlynningar við á sjúkrahúsi að sögn SCMP-fréttavefjarins.
Gagnrýnendur hafa sagt að lögin geti orðið til þess að íbúar Hong Kong þurfi að sæta pyntingum, tilhæfulausu gæsluvarðhaldi og þvinguðum játningum á meginlandinu, þar sem stjórnvöld verða seint þekkt fyrir virðingu fyrir mannréttindum og lögum réttarríkisins.
Heimastjórnin í Hong Kong hefur þó heitið því að lagalegir fyrirvarar muni sjá til þess að mannréttinda verði gætt.