Gróðurhúsið besta fjárfestingin

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði hefur unun af því að bæta samfélagið í kringum sig. Hún er mikill garðunandi og segir að lífsgæðin hafi aukist mikið þegar hún fékk gróðurhús í garðinn. Um helgina fer fram hátíðin Blóm í bæ en hátíðin og segir hún þetta mikla lyftistöng fyrir samfélagið. 

„Þetta er í áttunda sinn sem viðburðurinn Blóm í bæ er haldinn í Hveragerði.  Það mætti segja að hann sé haldinn annað hvert ár en þegar bæjarbúar eru sérlega vel stemmdir þá er viðburðurinn árlega,“ segir Aldís og bætir við: 

„Það kappkosta allir, bæði sveitarfélagið sjálft og bæjarbúar,  að hafa allt eins snyrtilegt og nokkur er kostur þessa daga. Það þýðir að við erum svo til búin með mest áberandi sumarverkin nú þegar og Hveragerði skartar þar með sínu fegursta í allt sumar. Það er ótvíræður kostur. Síðan má ekki gleyma að allur sá fjöldi sem hingað kemur nýtur að sjálfsögðu þeirra þjónustu sem hér er í boði, gróðrarstöðvanna, verslana og veitingastaða auk þess að njóta þess fallega umhverfis og afþreyingar sem er í boði þessa helgi sem aðrar hér í blómabænum.“

Aðspurð að því hvort hún sjálf sé með græna fingur segir hún svo vera. 

„Gróður og garðyrkja er eitt af mínum fjölmörgu áhugamálum,“ segir hún og bætir við: 

„Við Lárus,maðurinn minn, erum með nokkuð stóran garð sem okkur finnst gaman að hafa fallegan.  Svo keyptum við gróðurhús fyrir nokkrum árum sem er ein albesta fjárfesting sem við höfum ráðist út í. Tilvist þess lengir sumarið í báða enda og gerir alla daga að sumardögum. Í því forrækta ég sumarblómin og er með fjölbreyttan gróður.  Þar er kirsuberjatréð mitt langefst á vinsældalistanum en það gefur heilmikið að gómsætum kirsuberjum ár hvert.“

-Nú hefur þú verið bæjarstjóri lengi, hvað drífur þig áfram í því starfi?

„Mér finnast það vera óendanleg forréttindi að hafa verið treyst fyrir þessu skemmtilega starfi í svona langan tíma. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að vinna með samhentri bæjarstjórn og góðum starfsmönnum að því að efla Hveragerði og gera bæinn okkar í sífellu betri. Hér eru svo miklir möguleikar og alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast.  Til mín leita margir með skemmtilegar hugmyndir, margar þeirra komast í framkvæmd og það er dásamlegt að fylgjast með því. Ánægja íbúa og það hversu duglegir þeir eru  að hrósa því sem vel er gert er svo það sem gefur manni langmest,“ segir hún. 

-Hvernig er venjulegur dagur í lífi bæjarstjórans í Hveragerði?

„Enginn dagur er eins og sá fyrri og maður veit í raun aldrei á hverju maður á von þegar maður mætir í vinnuna. Ég er alltaf með opið inn til mín bæði fyrir starfsmenn og bæjarbúa svo það er mikið um heimsóknir og oft heilmikill erill yfir daginn. Síðdegis þegar skrifstofan lokar þá er oft meira næði til að vinna að hinum fjölbreyttu verkefnum og því er ég oftast ekki komin heim fyrr en undir kvöldmat.  Ég reyni nú samt eins og ég mögulega get að halda góðu sambandi við fjölskyldu og vini og því eru kvöld og helgar líka erilsöm en með öðrum hætti. Fimmta barnabarnið okkar Lárusar er síðan væntanlegt eftir örfáar vikur svo óneitanlega vil ég gjarnan vera eins góð amma eins og erilsamt starfið gefur mér tækifæri til að vera.“

-Hvað gerir þú til þess að vera ekki goslaus og brenna ekki út?

„Mér finnst gaman að velta fyrir mér nýjum hugmyndum og aðferðum til að bæta samfélagið og það heldur mér á tánum.  Síðan má ekki gleyma að þegar manni finnst skemmtilegt í vinnunni þá verður hún að lífsstíl og vinna og einkalíf verður allt samofið. En þegar ég þarf á orku að halda þá fer ég annað hvort í sund í okkar dásamlegu sundlaug í Laugaskarði eða fer út að ganga ein með sjálfri mér hér í kringum Hveragerði og minni mig á að ég hljóti að hafa dottið í stóra lukkupottinn í fyrsta lagi að hafa fæðst Íslendingur og vera búandi á þessum orkumikla stað og hins vegar að hafa hlotið þá góðu gjöf af fá að þjóna því samfélagi sem mér þykir vænst um.“

mbl.is