Wong krefst afsagnar Carrie Lam

Joshua Wong ræðir við blaðamenn eftir að honum var sleppt …
Joshua Wong ræðir við blaðamenn eftir að honum var sleppt úr fangelsi. AFP

Aðgerðasinninn Joshua Wong hefur krafist afsagnar héraðsstjóra Hong Kong, Carrie Lam, eftir að hafa verið látinn laus úr fangelsi.

Wong, sem er 22 ára, varð heimsþekktur fyrir að standa framarlega í flokki í mótmælum stúdenta gegn kínverskum stjórnvöldum árið 2014. Wong hlaut tvo fangelsisdóma fyrir þátt sinn í mótmælunum en var látinn laus í morgun eftir að hafa setið á bak við lás og slá í einn mánuð.

Undanfarið hafa verið uppi hörð mótmæli gegn umdeildu frumvarpi sem leyfir framsal brotamanna til Kína.

„Hún er ekki lengur hæf til að vera leiðtogi Hong Kong,“ sagði Wong við blaðamenn. „Ég ætla einnig að berjast með íbúum Hong Kong gegn hinum illu lögum um framsal til Kína.“

Þess hefur verið krafist að stjórnvöld hætti alfarið við áformin um að leyfa framsalið en þau hafa hingað til talað um að fresta þeim.

Að sögn skipuleggjenda tóku yfir 2 milljónir manna þátt í mótmælum í Hong Kong í gær, þrátt fyrir að áformunum um framsalið hafi verið frestað. Mótmælin héldu áfram í morgun.

Stjórnvöld í Peking sendu frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem þau áréttuðu stuðning sinn við Carrie Lam. „Ríkisstjórnin mun halda áfram að standa þétt við bakið á héraðsstjóranum. Einnig mun hún styðja stjórnvöld í Hong Kong við að stjórna sjálfsstjórnarhérðaðinu eins og lög kveða á um,“ sagði Lu Kang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

Joshua Wong.
Joshua Wong. AFP
mbl.is