Lentu flugvél við hæsta tind Evrópu

Margir fjallagarpar eiga sér þann draum heitastan að klífa Hvítfjall.
Margir fjallagarpar eiga sér þann draum heitastan að klífa Hvítfjall. Ljósmynd/Pixabay

Það kann að koma mörgum í opna skjöldu að mun fleiri láta lífið við að reyna að komast á toppinn á Mont Blanc heldur en sjálft Everest fjall en líklegasta skýringin er sú að mun fleiri reyna við það fyrrnefnda.

Tveir svissneskir fjallagarpar fengu þá flugu í hausinn á dögunum að spara sér sporin og í stað þess að klífa fjallið lentu þeir lítilli flugvél í 4.450 m hæð eða tæpum 400 m frá toppi fjallsins. Garparnir komust þó ekki á toppinn því þeir voru stöðvaðir af lögreglu á svæðinu. Þeir fengu þó að fljúga flugvélinni af fjallinu en voru teknir höndum við lendingu.

Að sögn lögreglufulltrúa á svæðinu þykir þetta atvik mikil hneisa þar sem ekki er leyfilegt að lenda flugvél á þessu svæði auk þess sem fjallagarparnir hefðu getað sett annað göngufólk í mikla hættu. Að sjálfsögðu þykir þetta að auki mikill álitshnekkir fyrir fjallagarpana sjálfa þar sem margir álíti þessa tilraun til að toppa fjallið hreint og beint svindl.

mbl.is