Bíllaus dagur í London í haust

Borgarstjóri London, Sadiq Khan.
Borgarstjóri London, Sadiq Khan. AFP

22. sept­em­ber næst­kom­andi verður bíla­laus dag­ur í bresku höfuðborg­inni London. Verður um 20 kíló­metra vegsvæði í miðborg­inni lokað og fjöl­marg­ir viðburðir verða haldn­ir á bíla­laus­um veg­um. Þá hafa 18 af 32 út­hverf­um London greint frá þátt­töku sinni í deg­in­um og verða veg­ir þar gerðir að „Leik­göt­um“ þar sem börn geta safn­ast sam­an og leikið sér á ör­ugg­an hátt.

Sa­diq Khan, borg­ar­stjóri London, greindi frá áformun­um fyrr í dag eft­ir því sem fram kem­ur á vef CNN, og er dag­ur­inn liður í aðgerðum yf­ir­valda að draga úr meng­un og svifryki í borg­inni, auk þess sem borg­ar­ar fái tæki­færi til að „end­urupp­lifa“ borg­ina.

Yfir tvær millj­ón­ir íbúa í London eru bú­sett­ir á svæðum þar sem nit­urdíoxíð magnið er yfir lög­legu há­marki, þeirra á meðal eru 400.000 börn und­ir átján ára aldri.

Sam­kvæmt skýrslu um loft­gæði á heimsvísu er loft­meng­un fimmta al­geng­asta dánar­or­sök í heim­in­um og veld­ur til að mynda fleiri dauðsföll­um en áfengi, eit­ur­lyf og vannær­ing.

Skrif­stofa borg­ar­stjóra til­kynnti í apríl að öku­tæki séu ábyrg fyr­ir um helm­ingi af því skaðlega magni nit­urdíoxíð sem finna má í and­rúms­lofti London og ýtir und­ir aukna tíðni ým­issa heilsu­far­svanda­mála á borð við ast­ma, krabba­mein og heila­bil­an­ir.

Í apríl varð London fyrsta borg­in í heim­in­um til að kynna fyr­i­r­áætlan­ir um sér­stakt svæði í borg­inni þar sem út­blást­ur öku­tækja verður að vera und­ir ákveðnu marki og verða eig­end­ur þeirra öku­tækja sem ekki upp­fylla strang­ar kröf­ur um magn út­blást­urs sektaðir.

mbl.is