Fyrstu niðurstöður kosninganna um borgarstjóra í Istanbúl gefa til kynna öruggt forskot Ekrem Imamoglu, frambjóðanda stjórnarandstöðuflokksins CPH, Flokks fólksins.
CPH er með 53,7% atkvæða en AKP með 45,5% atkvæða. 95% þeirra hafa verið talin.
AKP, Réttlætis- og þróunarflokkur Recep Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta, með Binali Yilidirim í fararbroddi, hefur viðurkennt ósigur, að því er segir hjá Al Jazeera.
Verið er að endurtaka kosningar sem haldnar voru í mars en voru dæmdar ógildar af yfirkjörstjórn. Þar fór CPH einnig með sigur af hólmi en aðeins munaði 14.000 atkvæðum. Munurinn er mun meiri núna.
„Eins og niðurstöðurnar líta út núna hefur keppinautur minn Ekrem Imamoglu forskot. Ég óska honum til hamingju með þetta og jafnframt óska ég honum góðs gengis,“ er haft eftir Yilidirim, frambjóðandanum í flokki Erdogans forseta.
Kosningarnar hafa verið sagðar prófsteinn á vinsældir Erdogans en umdeild var sú ákvörðun að endurtaka þær.
Athygli hefur vakið núna í aðdraganda kosninga að Erdogan hefur ekki haft sig mikið frammi í kosningabaráttunni.
Forsetinn þeyttist út um allt Tyrkland í marsmánuði í aðdraganda fyrri kosninganna og lagði mikla áherslu á að flokkur hans þyrfti að ná góðum árangri. Svo töpuðust þær kosningar en menn voru þá látnir ganga aftur til kosninga.