Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom til Sádi-Arabíu í morgun til að ræða spennuna í samskiptum bandarískra og íranskra stjórnvalda.
Búist er við að Pompeo muni ræða við Salman, konung Sádi-Arabíu, og Mohammed bin Salman krónprins, í borginni Jeddah við Rauða hafið í dag. Þaðan mun Pompeo fljúga til Sameinuðu arabísku furstadæmanna, þar sem frekari viðræður fara fram, að sögn bandarískra yfirvalda.
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum tala bæði fyrir harðgerðum viðbrögðum bandarískra stjórnvalda. Pompeo segir Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin vera góða bandamenn í þeirri áskorun sem Bandaríkin standa frammi fyrir vegna aðgerða íranskra stjórnvalda.
„Við munum ræða hvernig við ætlum að stilla saman strengi og hvernig við getum myndað hnattrænt bandalag,“ sagði Pompeo þegar hann ræddi stuttlega við fjölmiðla fyrir brottför.
Spennan í samskiptum Bandaríkjanna og Írans hefur farið stigvaxandi síðustu daga og vikur. Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í gær að Bandaríkin hafi gert tölvuárás á eldflaugavarnarkerfi Írans og njósnakerfi landsins eftir að dróni Bandaríkjahers var skotinn niður af Írönum. Stjórnvöld í Íran segja að tölvuárásir Bandaríkjanna hafi hins vegar aldrei tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.