Um 1.500 íbúar Hong Kong gengu um götur sjálfstjórnarsvæðisins í dag til að reyna vekja alþjóðlega athygli á því sem þau kalla nýlenduvæðingu kínverskra stjórnvalda.
Íbúar í Hong Kong hafa mótmælt af krafti undanfarið síðan stjórnvöld lögðu fram frumvarp sem heimilar framsal afbrotamanna frá Hong Kong til Kína. Telja margir að frumvarpið gefi stjórnvöldum í Kína kost á að sækja gegn pólitískum andstæðingum, samkynhneigðum og fleiri jaðarsettum hópum fólks.
Mótmælendur skiptu sér í þrjá hópa í dag og gengu að skrifstofum ræðismanna erlendra ríkja (aðallega ríkja í G20-samtökunum) í Hong Kong til að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á málinu. Skilaboðin voru að mestu einföld: „Frelsið Hong Kong.“ Á einu skiltinu stóð „Bandaríkjaforseti Trump, vinsamlegast bjargaðu Hong Kong.“
Í gær var fjöldafjármögnun sett á laggirnar til að safna fjármagni til að kaupa auglýsingar í erlendum fjölmiðlum. Á 11 klukkustundum söfnuðust 858 þúsund bandaríkjadollarar sem verða notaðir til að kaupa auglýsingapláss í stórum alþjóðlegum fjölmiðlum á borð við The New York Times, Financial Times og The Japan Times.
Mótmælendur segjast ætla að halda áfram að mótmæla og vekja athygli á málinu fram að G20-ráðstefnunni sem fer fram í Osaka í Japan um helgina. Yfirvöld í Peking segja að Kína muni ekki leyfa umræðu um framsalsfrumvarpið á ráðstefnunni í Osaka og að það sé ekki inni í myndinni að erlend ríki fái að skipta sér af innanríkismálefnum Kína.
Heimildir: South China Morning Post og The Guardian.