Alls var tilkynnt um 129 hryðjuverkatilraunir innan Evrópusambandsins á árinu 2018, og dróst fjöldi þeirra saman um 40% frá árinu á undan. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Evrópulögreglan, Europol, útbjó að beiðni Evrópuþingsins. Er samdrátturinn einkum rakinn til fækkunar á tilkynntum hryðjuverkaárásum þjóðernissinna og aðskilnaðarsinna. Þessir hópar bera þó enn ábyrgð á meirihluta árásartilrauna, 83 af 129.
Þrettán létu lífið í hryðjuverkaárásum innan sambandsins árið 2018 og voru árásarmennirnir allir jíhadistar, sem voru einir að verki en jafnan undir áhrifum frá öðrum róttæklingum og hryðjuverkahópum.
Til viðbótar við heppnaðar hryðjuverkaárásir var tilkynnt um 16 árásir jíhadista sem komið var í veg fyrir og rétt um eitt hundrað misheppnaða árásir, og segir Europol það til marks um skilvirkar hryðjuverkavarnir lögreglunnar.
1.056 voru handteknir vegna gruns um hryðjuverkastarfsemi á síðasta ári, og er það fækkun um 13% frá árinu á undan. Konur eru um fimmtungur hinna handteknu.
Segir i skýrslunni að lögreglan hafi viðvarandi áhyggjur af því að einstaklingar með sakaferil, jafnt fangar og frjálsir menn, séu berskjaldaðir fyrir heilaþvotti og innrætingu og gætu verið dregnir yfir til myrku aflanna, hryðjuverkasamtaka.