40% fækkun hryðjuverkatilrauna

Evrópulögreglan hefur gefið út skýrslu um hryðjuverkaógn innan álfunnar. Evrópa …
Evrópulögreglan hefur gefið út skýrslu um hryðjuverkaógn innan álfunnar. Evrópa er eftir sem áður öruggasta heimsálfan, en hryðjuverkaógn er til staðar þar, sem annars staðar. AFP

Alls var til­kynnt um 129 hryðju­verka­tilraun­ir inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins á ár­inu 2018, og dróst fjöldi þeirra sam­an um 40% frá ár­inu á und­an. Þetta kem­ur fram í nýrri skýrslu sem Evr­ópu­lög­regl­an, Europol, út­bjó að beiðni Evr­ópuþings­ins. Er sam­drátt­ur­inn einkum rak­inn til fækk­un­ar á til­kynnt­um hryðju­verka­árás­um þjóðern­is­sinna og aðskilnaðarsinna. Þess­ir hóp­ar bera þó enn ábyrgð á meiri­hluta árás­ar­tilrauna, 83 af 129.

Þrett­án létu lífið í hryðju­verka­árás­um inn­an sam­bands­ins árið 2018 og voru árás­ar­menn­irn­ir all­ir jí­hadist­ar, sem voru ein­ir að verki en jafn­an und­ir áhrif­um frá öðrum rót­tæk­ling­um og hryðju­verka­hóp­um.

Til viðbót­ar við heppnaðar hryðju­verka­árás­ir var til­kynnt um 16 árás­ir jí­hadista sem komið var í veg fyr­ir og rétt um eitt hundrað mis­heppnaða árás­ir, og seg­ir Europol það til marks um skil­virk­ar hryðju­verka­varn­ir lög­regl­unn­ar.

1.056 voru hand­tekn­ir vegna gruns um hryðju­verk­a­starf­semi á síðasta ári, og er það fækk­un um 13% frá ár­inu á und­an. Kon­ur eru um fimmt­ung­ur hinna hand­teknu.

Seg­ir i skýrsl­unni að lög­regl­an hafi viðvar­andi áhyggj­ur af því að ein­stak­ling­ar með saka­fer­il, jafnt fang­ar og frjáls­ir menn, séu ber­skjaldaðir fyr­ir heilaþvotti og inn­ræt­ingu og gætu verið dregn­ir yfir til myrku afl­anna, hryðju­verka­sam­taka.

mbl.is