64% hafa breytt hegðun sinni til á lágmarka áhrif sín á umhverfi

Spurningarnar eru liður í umhverfiskönnun MMR en birtingar á niðurstöðum …
Spurningarnar eru liður í umhverfiskönnun MMR en birtingar á niðurstöðum hófust fyrr í vikunni og mun þeim halda áfram í næstu viku. mbl.is/RAX

64% landsmanna segjast hafa breytt hegðun sinni mikið eða nokkuð síðastliðna 12 mánuði til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar. Einungis 12% svarenda kváðust ekki hafa gert neinar breytingar á hegðun sinni yfir síðastliðna 12 mánuði.

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem spurði hversu mikið eða lítið landsmenn hafi breytt hegðun sinni til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar.

Þegar spurt var um sértækar breytingar á hegðun kom í ljós að Íslendingar eru meðvitaðir um flokkun sorps og kváðust heil 86% hafa síðastliðna 12 mánuði gert miklar eða nokkrar breytingar á flokkun sorps hjá sér. Þá kváðust 62% hafa gert miklar eða nokkrar breytingar á kauphegðun sinni. Landsmenn virðast þó nokkuð tregari til að gera breytingar á matar- og ferðavenjum en 60% höfðu gert litlar eða engar breytingar á matarvenjum sínum og 69% á ferðavenjum sínum, að því er MMR greinir frá.

Af konum kváðust 75% hafa gert miklar eða nokkrar breytingar á hegðun sinni, samanborið við 53% karla. Karlar (17%) voru jafnframt talsvert líklegri en konur (7%) til að hafa ekki gert neinar breytingar á hegðun sinni.

Fólk á aldrinum 18-29 ára (19%) reyndist hvað líklegast til að hafa gert miklar breytingar á hegðun sinni en með auknum aldri fór hlutfall þeirra stiglækkandi sem höfðu gert miklar breytingar á hegðun sinni.

Af stuðningsfólki Samfylkingarinnar kváðust 85% hafa gert miklar eða nokkrar breytingar á hegðun sinni og 79% stuðningsfólks Vinstri grænna. Af stuðningsfólki Miðflokksins kváðust 24% ekki hafa gert neinar breytingar á hegðun sinni, 20% stuðningsfólks Framsóknar og 19% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins.

Spurningarnar eru liður í umhverfiskönnun MMR en birtingar á niðurstöðum hófust fyrr í vikunni og mun þeim halda áfram í næstu viku. Könnunin var framkvæmd dagana 23. til 29. maí 2019 og var heildarfjöldi svarenda 932 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is