Matartorg verður í sumar á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík og er undirbúningur í fullum gangi.
Faxaflóahafnir auglýstu á dögunum eftir umsóknum áhugasamra að vera með matarvagna og matarbíla á svæðinu og bárust nokkrar umsóknir, að sögn Hildar Gunnlaugsdóttur skipulagsfulltrúa Faxaflóahafna.
Í auglýsingunni er tekið fram að ekki sé heimilt að bera fram mat í einnota umbúðum úr plasti eða vera með hnífapör, rör og annað slíkt úr plasti. „Við höfum ekki áður verið með þau skilyrði að ekki megi nota plastáhöld en okkur finnst eiginlega óábyrgt að gera það ekki,“ segir Hildur í Morgublaðinu í dag.
Hún segir að ýmsir möguleikar séu fyrir hendi í þessum efnum. Til dæmis noti margir svokallaðir „take away“ staðir ekki plastáhöld. Hægt sé t.d. að nota papparör, einnota hnífapör úr léttum við, hnífapör úr efni sem brotnar niður (ólíkt plasti) og ílát úr pappír og pappa.