Leikarinn ungi Tom Holland segist aldrei ætla í ræktina aftur með leikaranum Jake Gyllenhaal. Þetta kemur fram á vef E News. Þrátt fyrir að Holland sé töluvert yngri en Gyllenhaal segist hann ekki vera í betra formi.
„Ég vildi ekki fara með Jake Gyllenhaal í ræktina því hann er í svo góðu formi og ég með svo mikið keppnisskap,“ segir Holland.
Eftir upphitun var Holland búinn á því en þá vildi Gyllenhaal fara á hlaupabretti að skokka.
„Lögmál ræktarinnar eru þau að maður hleypur ekki hægar en maðurinn við hliðina,“ segir Holland og útskýrir að þeir hafi í upphafi ákveðið að hlaupa 1,5 km. En hafi síðan endað á að hlaupa 10 km á fullum hraða.
Uppátækið varð til þess að Holland átti erfitt með gang í nokkurn tíma á eftir. Hann setur því stórt spurningarmerki við að æfa með Gyllenhaal í framtíðinni.