Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, fordæmir það sem hún kallar „öfgafulla notkun ofbeldis“ mótmælenda sem brutust inn í þinghús sjálfstjórnarsvæðisins og gengu þar berserksgang í gær.
Þá hafa kínversk stjórnvöld farið fram á að þeir sem stóðu fyrir innbrotinu verði sóttir til saka vegna málsins.
Mótmælendurnir héldu til í þinghúsinu klukkustundum saman þar til lögreglan greip til þess ráðs að nota gas og kylfur til þess að rýma húsið. Allt að 50 slösuðust í aðgerðunum, en umræddir mótmælendur höfðu skilið sig frá hópi friðsælla mótmælenda sem mótmæltu yfirráðum kínverskra stjórnvalda í Hong Kong, en í gær voru 22 ár síðan Bretar framseldu yfirráð sín til Kínverja.
Mótmælaaldan hófst þegar umdeilt lagafrumvarp var lagt fyrir þing Hong Kong, en það kvað á um að framselja mætti afbrotamenn til Kína. Stjórnvöld í Hong Kong hafa frestað fyrirtöku frumvarpsins um óákveðinn tíma, en mótmælin halda áfram og krefjast mótmælendur nú meðal annars afsagnar Carrie Lam og lýðræðis fyrir Hong Kong.