Umsókn Hvals enn í vinnslu

Hvalveiðiskipin Hvalur 8 og Hvalur 9 í Reykjavíkurhöfn.
Hvalveiðiskipin Hvalur 8 og Hvalur 9 í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Júlíus

Um­sókn Hvals hf. um leyfi til veiða á langreyðum í ár er enn í vinnslu hjá at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu. Þetta kem­ur fram í svari ráðuneyt­is­ins við fyr­ir­spurn mbl.is.

200 míl­ur greindu frá því í gær að fyr­ir­tækið hefði enn ekki fengið nýtt leyfi til langreyðaveiða, þrátt fyr­ir að hafa sótt um slíkt leyfi 14. mars. 

Seg­ir þar enn frem­ur að ráðuneytið hafi kallað eft­ir um­sögn Fiski­stofu og nú síðast um­sögn Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, í gær. 

150 manns við veiðar og verk­un í fyrra

Alls voru 145 langreyðar veidd­ar við landið á síðasta ári, en eng­ar hafa verið veidd­ar í ár. Um 150 manns unnu við veiðar og verk­un hjá Hval í Hval­f­irði og Hafn­ar­f­irði á vertíðinni í fyrra, sem stóð í sam­tals 98 daga frá 19. júní.

Ljóst má því telja að vertíðin væri haf­in í ár, ef tekið er mið af síðasta ári, væri Hval­ur bú­inn að fá já­kvætt svar við um­sókn sinni. Í svari ráðuneyt­is­ins seg­ir að Hval­ur hafi ekki lagt fram kvört­un vegna þessa.

Veiðar á 209 langreyðum leyfðar

Fyr­ir­komu­lag hval­veiða er með þeim hætti að þær eru frjáls­ar þeim sem fengið hafa leyfi uns til­tek­inn heild­ar­fjöldi dýra hef­ur verið veidd­ur, sam­kvæmt reglu­gerð sem Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra gaf út 19. fe­brú­ar. Í viðauka henn­ar seg­ir einnig að leyfi­leg­ur heild­arafli á langreyði og hrefnu skuli nema þeim fjölda dýra sem kveðið sé á um í veiðiráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar.

Ráðgjöf stofn­un­ar­inn­ar fyr­ir yf­ir­stand­andi ár hljóðar upp á veiðar á sam­tals 209 langreyðum.

mbl.is