Ég var með svolítið fyrirframákveðnar hugmyndir um eyjuna en hafði komið þangað fyrir trúlega um 15 árum þegar ég fór aftur fyrir stuttu síðan.
Eftir að hafa verið búsett síðastliðna mánuði á Tenerife og ferðast mikið um eyjuna fannst mér spennandi að koma til Gran Canaria og þá sérstaklega með það fyrir augum að skoða áhugaverða staði sem jafnvel ekki margir vita af. Keyra upp í fjöll, skoða fallega náttúru, útivistarsvæði, gönguleiðir, hjólaleiðir og fjölbreytta afþreyingu.
Það er óhætt að segja að eyjan kom mér virkilega á óvart.
Hótelið sem ég gisti á fyrstu dagana var á Meloneras-svæðinu og heitir Villa de Conde. Um er að ræða ofboðslega fallegt 5 stjörnu hótel á suðurhluta eyjunnar rétt við ströndina. Hótelið minnir töluvert á kirkju að innan með stórum og flottum gluggum.
Seinni hluta ferðarinnar gisti ég í litlu fallegu þorpi á suðvesturhluta eyjunnar, sem heitir Puerto de Mogán. Hótelið heitir Cordial Mogán playa og er frábærlega staðsett en þaðan er hægt að ganga beint niður að strönd.
Ég get algjörlega mælt með báðum hótelunum, fyrir fjölskyldur, pör eða vinahópa.
Ég notaði tímann vel til að skoða áhugaverða staði og keyrði m.a. þvert yfir eyjuna í gegnum fallega smábæi uppi í sveit. Ferðina fór ég með http://viajestara.es/. Ég heimsótti aloe vera-búgarð og fékk þar fræðslu um þessa sérstöku plöntu sem, eins og við þekkjum, inniheldur mjög græðandi vökva og er einstaklega góð við brunasárum og sólbruna.
Fékk til að mynda að smakka hreinan aloe vera-vökva sem sagt er að sé allra meina bót, bragðið hins vegar... já það er óhætt að segja að hann bragðast afar illa!
Á leiðinni skoðaði ég fjölbreytta náttúru og sá m.a. möndlu, apríkósu og eucalyptus-tré.
Einnig skoðaði ég svæðið í kringum Pico De la Nieves, sem er hæsti tindur Gran Canaria en hann stendur u.þ.b. á miðri eyjunni og er 1949 metra hár. Þar í kring er að finna margar af áhugaverðustu gönguleiðum eyjunnar, en ein af þeim vinsælustu liggur að Roque Nublo, rétt tæplega 70 metra háu eldfjallagrjóti.
Á Gran Canaria eru einnig margar áhugaverðar hjólaleiðir en ég fór í eina slíka og fékk að prufa rafhjól í fyrsta skipti (E-bike). Ég fór í flotta hjólaferð með Freemotion.
Leiðin sem ég fór var rúmlega 33 km löng og liggur frá Playa de Ingles upp að litlu þorpi sem heitir Ayagaures en þar er meðal annars að finna fallegt stöðuvatn.
Það var mjög áhugavert að heyra að á eyjunni er að finna yfir sextíu stöðuvötn, sem myndast með regnvatni og eru eingöngu notuð til að vökva ávexti og grænmeti sem ræktað er á eyjunni.
En aftur að hjólaferðinni þá mæli ég svo sannarlega með að prufa hjólaferð á rafhjóli því þannig getur þú ferðast um án þess að vera sérstaklega vanur miklum hjólreiðum. Hjólið er stillt eftir erfiðleikastigi og getur verið gott að fá auka „kraft“ þegar farið er upp lengri brekkur.
Sá staður sem mér fannst standa mest upp úr var bærinn Puerto de Mogán og Amadores-ströndin sem er stutt þar frá. Puerto de Mogán gengur stundum undir nafninu „Litlu-Feneyjar“ því hafnarsvæðið er byggt upp í kringum lítil síki með veitingastöðum og litlum þröngum blómagötum.
Þar var mikið um fallegar skútur og snekkjur sem eru hver annari fallegri. Einnig er hægt að fara í fjölbreytt vatnasport eins og að kafa, snorkla o.fl.
Ég myndi segja að Amadores-ströndin sé algjörlega falin perla á Gran Canaria. Ólíkt öðrum ströndum á eyjunum er þessi með hvítum sandi og sjórinn er svo fallega tær og blágrænn. Fullkomið fyrir þá sem vilja upplifa nýja staði og njóta lífins.
Ströndin er um 800 metra löng og ofboðslega falleg og snyrtileg. Þarna er mikið um skemmtilega veitingastaði og nóg af bílastæðum í kring.
Við endann á ströndinni var svo ferlega lekker Beah club/strand bar en þar er algjörlega tilvalið að sitja með ískaldan kokteil og tapas-smárétti og horfa út á fallegt hafið.
Mæli með heimsókn til Gran Canaria og upplifa nýja hlið á eyjunni.
Ég hlakka mikið til að fara aftur og skoða enn meira.
Frekari upplýsingar og fleiri skemmtilegar greinar má finna á vefsíðu Unnar.