Ný Vestmannaey kom til hafnar í dag

Nýja Vestmannaey siglir inn til Eyja í fyrsta sinn í …
Nýja Vestmannaey siglir inn til Eyja í fyrsta sinn í dag. Ljósmynd/Guðmundur Alfreðsson

Nýtt skip útgerðarfé­lags­ins Bergs-Hug­ins, dótt­ur­fé­lags Síld­ar­vinnsl­unn­ar á Nes­kaupsstað, Vest­manna­ey VE, kom til heima­hafn­ar í Vest­manna­eyj­um í dag og var vel tekið á móti skip­inu, að því er fram kem­ur á heimasíðu Síld­ar­vinnsl­unn­ar. 

Skipið er smíðað í skipa­smíðastöð Vard í Aukra í Nor­egi. 

Birgir Þór Sverrisson í brúnni á nýja skipinu.
Birg­ir Þór Sverris­son í brúnni á nýja skip­inu.

Birg­ir Þór Sverris­son skip­stjóri seg­ir að hon­um lít­ist af­skap­lega vel á skipið. Það sé glæsi­legt í alla staði og með mikl­um og góðum búnaði. Þá seg­ir hann að sé skipið skipið borið sam­an við gömlu Vest­manna­eyna blasi við full­komn­ari aðstaða að flestu leyti. Nefn­ir hann þar vinnu­um­hverfið á milli­dekki og í brúnni en þar er að hans sögn um mikla breyt­ingu að ræða.

„Þá má nefna að í skip­inu eru tvær vél­ar og tvær skrúf­ur og ég tel full­víst að það hafi í för með sér meiri tog­kraft. Skipið er einkar hljóðlátt. Það heyr­ist lítið í vél­un­um og öll spil eru knú­in raf­magni. Þá er þetta skip sér­stak­lega mjúkt og fer vel með mann­skap­inn. Við feng­um kalda­skít á leiðinni til lands­ins og upp­lifðum þá hvernig það fer í sjó,“ seg­ir Birg­ir.

„Það er svo sann­ar­lega til­hlökk­un­ar­efni að fara að fiska á þetta skip en það mun ekki ger­ast fyrr en um mánaðamót­in ág­úst-sept­em­ber. Það á eft­ir að ganga frá búnaði á milli­dekk­inu en sú vinna verður haf­in í Vest­manna­eyj­um og síðan verður dekkið klárað í Slippn­um á Ak­ur­eyri.“

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, sem er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar.
Þor­steinn Már Bald­vins­son for­stjóri Sam­herja, sem er stærsti hlut­hafi Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

Lengd nýja skips­ins er 28,9 metr­ar, breidd­in er 12 metr­ar, og þyngd­in er 183,4 nett­ót­onn. 

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, Magnús Kristinsson fyrrum eigandi Bergs-Hugins …
Þor­steinn Már Bald­vins­son for­stjóri Sam­herja, Magnús Krist­ins­son fyrr­um eig­andi Bergs-Hug­ins og Gunnþór Ingva­son fram­kvæmda­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar.
mbl.is