Kalifornía semur við bílaframleiðendur

Bílar á ferð um hraðbraut í Kaliforníuríki. Mynd úr safni.
Bílar á ferð um hraðbraut í Kaliforníuríki. Mynd úr safni. AFP

Fjór­ir stór­ir bíla­fram­leiðend­ur til­kynntu í dag að þeir hefðu kom­ist að sam­komu­lagi við stjórn­völd í Kali­forn­íu­ríki um regl­ur varðandi eldsneyt­is­los­un og sniðganga með því til­raun­ir stjórn­ar Don­ald Trumps Banda­ríkja­for­seta til að svipta Kali­forn­íu­ríki rétt­in­um á að setja eig­in staðla.

Kali­forn­ía og fleiri ríki Banda­ríkj­anna hétu, eft­ir að Trump af­nam stefnu Banda­ríkj­anna í los­un­ar­mál­um, að fram­fylgja los­un­ar­stöðlum sem sett­ir voru í for­setatíð Barack Obama.

Reu­ters seg­ir bíla­fram­leiðend­ur hafa haft áhyggj­ur af að dóms­mál milli Kali­forn­íu og al­rík­is­yf­ir­valda um rétt rík­is­ins til að setja sína eig­in staðla tæki lang­an tíma.

Það eru Ford, Honda, Volkswagen og BMW sem sömdu við Kali­forn­íu „á laun“ að því er seg­ir í yf­ir­lýs­ingu Kali­forn­íu­stjórn­ar sem kveður sam­komu­lagið veita 50 ríkja lausn sem hindri að bútasaum­ur reglu­gerða verði til í ríkj­um lands­ins.

„Kali­forn­ía, sam­band ríkja og þess­ir bíla­fram­leiðend­ur eru leiðandi varðandi snjalla stefnu sem ger­ir loftið hreinna og ör­ugg­ara fyr­ir okk­ur öll,“ sagði í yf­ir­lýs­ingu frá Gavin New­som, rík­is­stjóra Kali­forn­íu. „Ég hvet nú af­gang­inn af bílaiðnaðinum til að slást í lið með okk­ur og Trump-stjórn­ina til að taka upp þessa hag­kvæmu mála­miðlun í stað þess að elta áfram aft­ur­halds­sam­ar reglu­breyt­ing­ar. Þetta er það rétta fyr­ir efna­hag okk­ar, al­menn­ing og plán­et­una.“

Reu­ters seg­ir viðbrögð um­hverf­is­vernd­ar­sam­taka við sam­komu­lag­inu þó vera blend­in, en sam­komu­lagið er val­kvætt og ekki laga­lega bind­andi. Það er þó strang­ara en stefna Trump-stjórn­ar­inn­ar, en nær ekki þeim kröf­um um los­un sem regl­ur Obama-stjórn­ar­inn­ar kváðu á um.

Kali­forn­ía er fjöl­menn­asta ríki Banda­ríkj­anna og eru um 12% allra bíla seld þar.

mbl.is