Þeir sem þekkja til í Vestmannaeyjum segja að það þurfi að leita langt aftur til að finna dæmi um fólk sem átti í vanda með að finna vinnu. Fyrirtækin í bænum hafa í gegnum tíðina verið vel rekin og metnaðarfull og komist klakklaust í gegnum alls kyns áföll og sveiflur.
Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélags Vestmannaeyja, segir undanfarinn áratug hafa verið farsælan og einkennst af mikilli uppbyggingu sem nú er að mestu afstaðin – þó svo að henni ljúki aldrei.
„Munar mest um að stóru frystihúsin hjá Ísfélaginu og Vinnslustöðinni hafa endurnýjað uppsjávarvinnslur sínar. Einnig hefur Langa stóreflt sig í fiskþurrkun og betri nýtingu alls kyns fiskafganga og -tegunda. Vinnslustöðin hefur á sama tíma stigið stór skref í fullvinnslu og pökkun loðnu- og síldarafurða, og svo hafa fyrirtæki á svæðinu sameinast um framleiðslu á niðursoðinni þorsklifur hjá Iðunni Seafoods, sem er nýlegt fyrirtæki á sviði niðursuðu,“ útskýrir hann.
„Þá lauk Hitaveita Suðurnesja nýverið við smíði varmadælustöðvar sem gjörbyltir orkunýtingu við húshitun í bænum. Við þetta bætist að ferðaþjónustan hefur verið í mikilli sókn, sérstaklega yfir sumarmánuðina, og fjöldi nýrra starfa orðið til í tengslum við það.“
Sjávarútvegur hefur myndað uppistöðuna í atvinnulífi svæðisins allt frá því þar varð til fyrsti vísir að byggð. Bæði er stutt að sækja á gjöful fiskimið og Vestmannaeyjar með einstaklega góða höfn frá náttúrunnar hendi. Var Heimaey iðulega fyrsti viðkomustaður skipa á leið til Íslands og síðasta höfn á leið aftur til Evrópu sem auðveldaði bæði inn- og útflutning. Eyþór segir að það megi núna reikna með því að vægi sjávarútvegsfyrirtækjanna fari smám saman minnkandi og er nú þegar búin að eiga sér stað þróun í þá átt að endurnýja skip og nútímavæða fiskvinnslufyrirtæki til að auka sjálfvirkni og afköst, svo að færri hendur þurfi til að veiða fiskinn og verka.
„Störfum á ekki eftir að fjölga í sjávarútvegi og eftirspurnin eftir ófaglærðu verkafólki í greininni dregst sífellt saman á meðan til verða ný störf sem krefjast meiri sérþekkingar. Táningarnir hlaupa ekki lengur undir bagga í fiskvinnslufyrirtækjunum á álagstímum, heldur ganga í störf af allt öðrum toga hjá nýjum veitingastöðum bæjarins og eru duglegir að sækja sér menntun.“
Þróunin sem Eyþór lýsir felur í sér erfiðar áskoranir fyrir bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar. Tími tiltölulega einhæfs atvinnulífs með nóg af störfum fyrir ófaglærða er liðinn og munu næstu kynslóðir koma inn á vinnumarkaðinn með verðmætar gráður og þekkingu frá öllum heimshornum og eru háð fjölbreyttu atvinnulífi til að geta fundið störf við sitt hæfi.
Eyþór segir að tæknin muni koma með lausnina því það verði æ algengara að vel menntað fólk geti unnið óháð staðsetningu. „Það þýðir að þau sem hafa sótt sér góða menntun eiga þess kost að flytja aftur heim til Eyja án þess að það þurfi að bitna á starfsferli þeirra og atvinnumöguleikum.“