Meghan gestaritstjóri Vogue

Meghan Markle hertogaynjan af Sussex er gestaritstjóri septemberheftis Vogue.
Meghan Markle hertogaynjan af Sussex er gestaritstjóri septemberheftis Vogue. AFP

Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, er gestaritstjóri septemberheftis bresku útgáfu tískutímaritsins Vogue. BBC greinir frá þessu og segir  Markle velja að prýða ekki forsíðu blaðsins sjálf, heldur beina athyglinni þess í stað að konum sem rjúfi múra.

Forsíða blaðsins er því prýdd myndum af 15 konum, m.a. aðgerðasinnanum Gretu Thunberg og Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands.

Hefur BBC eftir aðalritstjóra Vogue Edward Enninful að hertogaynjunni hafi fundist of mikið sjálfshól í að setja mynd af sjálfri sér á forsíðuna.

Forsíða septemberheftis Vogue.
Forsíða septemberheftis Vogue.

Þess í stað vonist hún til þess að konurnar sem fjallað er um í heftinu veiti öðrum sama innblástur og henni sjálfri.

Yfirskrift septemberheftisins er Afl breytinga og er athyglinni þar beint að „brautryðjendum sem eru sameinaðir í óttaleysi sínu gagnvart því að rjúfa múra,“ sagði í yfirlýsingu Buckingham hallar.

Meghan, sem átti fyrsta barn þeirra Harrys Bretaprins í maí á þessu ári, sagðist hafa unnið að verkefninu undanfarna sjö mánuði og að með því vilji hún beina „mest lesna tölublaði tískutímaritsins að þeim gildum, málstöðum og einstaklingum sem hafa áhrif á heiminn í dag.“

„Ég vona að þið upplifið í gegnum linsuna heildarstyrk þessara ólíku kvenna, sem valdar voru á forsíðuna, sem og teymisins sem ég notaði til að beina kastljósinu að þessu,“ sagði Meghan. Ég vona að lesendur upplifi sig jafn innblásna og mig af þeim breytingaöflum sem þeir munu sjá á þessum síðum.“

mbl.is