Þúsundir mótmælenda streymdu út á götur í Hong Kong í dag þar sem þeir lokuðu stórum götum. Mótmælendur hunsa lögreglu sem bannaði mótmæli þeirra en hópurinn reiddist afskiptaleysi lögreglu þegar grímuklæddir menn réðust á fólk í lestarstöð í síðustu viku.
Mótmælendur klæddust svörtu og héldu á regnhlífum. Þeir hrópuðu slagorð gegn lögreglu á meðan gengið var í gegnum viðskiptahverfið.
Lögregla hafði veitt leyfi til mótmæla í almenningsgarði en hafði sagt að þar fyrir utan væri ólöglegt að safnast saman.
Lögregla beitti táragasi á mótmælendur og skaut gúmmíkúlum í átt að þeim þar sem mótmælt var í Yen Long hverfinu í gær.
Mótmælt hefur verið í Hong Kong frá því um miðjan júní þegar stjórnvöld kynntu áætlun sína að leggja fram framsalsfrumvarp sem margir innfæddir í Hong Kong töldu vera Trójuhest Kínverja til að fá aukin völd í sjálfstjórnarhéraðinu.
Hong Kong er talin ein öruggasta borg í heimi. Hins vegar hefur ofbeldi milli mótmælanda, lögreglu og grímuklæddra manna aukist síðustu daga.
Ríkisstjóri Hong Kong, Carrie Lam, þykir alltof höll undir ásælni Kínverja um meiri yfirráð yfir sjálfstjórnarhéraðinu og er henni vantreyst mjög af íbúum Hong Kong.
Mótmælendur hafa lofað því að viðhalda þrýstingi á stjórnvöld í Hong Kong þangað til kröfum þeirra verður mætt en þær eru meðal annars að Carrie Lam segi af sér og að lofað verði að framsalsfrumvarpið verði aldrei lagt fyrir í framtíðinni.