Hlýjasti mánuður í Reykjavík

mbl.is/Arnþór Birkisson

Meðal­hiti júlí­mánaðar í Reykja­vík var 13,4 stig, og er mánuður­inn hlýj­asti ein­staki mánuður frá því mæl­ing­ar hóf­ust. Frá þessu grein­ir Trausti Jóns­son veður­fræðing­ur í færslu á vefsíðu sinni. Fyrra met var slegið árið 2010 þegar 13,0 gráða meðal­hiti mæld­ist í borg­inni.

Um sól­ar­hringsmeðaltal er að ræða, en í sam­tali við mbl.is í síðustu viku, þegar útséð þótti að metið félli, sagði Trausti að hár meðal­hiti þenn­an mánuð skýrðist af óvenju­litl­um mun á milli dags og næt­ur. Þung­skýjað hef­ur verið í borg­inni um hríð og verða næt­ur þá hlýrri en ella.

Veðrið hef­ur einnig verið stöðugt í mánuðinum, en háum hitatopp­um ekki fyr­ir að fara. Þannig er meðal­hiti í mánuðinum þrem­ur gráðum hærri en í júní, en hæsti hiti sum­ars­ins mæld­ist engu að síður 14. júní, 21,1 gráður sam­an­borið við 20,2 gráður í júlí. Að sama skapi mæld­ist var lægsti hiti í júní 1,2 gráður, en 5,8 í júlí. Töl­urn­ar eru úr mannaðri mælistöðinni á Veður­stofu­hæðinni, en rétt er að geta þess að töl­ur júlí­mánaðar eru óyf­irfarn­ar.

Trausti seg­ir fyrstu daga mánaðar­ins hafa verið kalda, en síðan hafi komið óvenju­lang­ur kafli um dag­inn þar sem hiti fór ekki niður fyr­ir tíu gráður. Þótti það sæta tíðind­um í upp­hafi mánaðar þegar hiti fór ekki und­ir 17 gráður í heil­an sól­ar­hring, sem Trausti seg­ir þó ekki met. Metið yfir hæsta lág­marks­hita sól­ar­hrings í Reykja­vík sé rúm­ar 18 gráður.

mbl.is