Lögreglan í Hong Kong beitti táragasi á fólk sem stendur fyrir mótmælendum níundu helgina í röð. Verið er að skipuleggja verkfall sem á að hefjast á mánudaginn og kínverski herinn hefur varað fólk við því að hefja óeirðir og hefur verið að æfa aðgerðir gegn slíkum aðgerðum.
BBC og AFP-fréttastofan greina frá.
Mótmæli hafa farið reglulega fram í Hong Kong síðan í júní þegar Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, greindi frá áætlunum sínum að leggja fram mjög svo umdeilt frumvarp um framsal afbrotamanna. Síðustu níu helgar hafa mótmælin aukist ef eitthvað er sem og harkan í þeim.
Fólk safnaðist saman í Mong Kok-hverfinu í Hong Kong að morgni til á staðartíma áður en þrammað var af stað inn í borgina. Mótmælendur lokuðu götum og úr varð mikið umferðaröngþveiti.
Mótmælin stóðu yfir langt fram á nótt í Hong Kong og þegar þá var komið við sögu hafði fólk safnast saman fyrir utan lögreglustöð í Tsim Sha Tsui-hverfinu. Lögreglunni var ekki skemmt og skaut hún í kjölfarið táragasi í átt að mótmælendum.
Samkvæmt The South China Morning Post-fjölmiðlinum í Hong Kong sögðu lögregluyfirvöld að „róttækir“ hópar hefðu kveikt elda í nágrenni við lögreglustöðina og kastað múrsteinum inn um glugga hennar.
„Lögreglan biður alla að yfirgefa svæðið samstundis og fordæmir allt ofbeldi,“ sagði talsmaður lögreglunnar.
Mótmælendur krefjast líkt og áður að framsalsfrumvarpið verði tekið alfarið af dagskrá en framlagningu þess ekki einungis frestað. Þá er þess krafist að ákærur gegn mótmælendum sem hafa verið handteknir verði látnar falla niður, að stjórnvöld hætti að lýsa mótmælunum sem „óeirðum“ og að aðgerðir lögreglumanna sem þykja hafa verið of harðar verði rannsakaðar og umbótum komið á.
Rúmlega 40 mótmælendur hafa verið ákærðir vegna þátttöku sinnar í fyrri mótmælum og komu þeir fyrir dómara á miðvikudaginn síðastliðinn. Þeir eiga yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi.