„Stemningin er búin að vera meiriháttar og ekkert hægt að kvarta yfir neinu. Það er búið að vera gott veður og fólk er sólbrunnið eftir daginn,“ segir Jón Bragi, varðstjóri hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is. Dagskráin í Eyjum hófst núna klukkan níu og brekkan er að fyllast.
„Fólk hefur upp til hópa hagað sér mjög vel og það hefur verið lítið um leiðindi miðað við mannfjöldann sem er hér,“ bætir hann við.
Hann segir erfitt að meta hversu margir þjóðhátíðargestir eru mættir til eyja en að „þetta er stórt, það er það eina sem við vitum.“
Jónas Guðbjörn Jónasson sem er i þjóðhátíðarnefnd telur að milli tólf og þrettán þúsund gestir séu í Vestmannaeyjum í ár sem er svipað og í fyrra.
„Brekkan er að fyllast af fólki og dagskráin er byrjuð. Það hefur verið rosalega góð stemning og þetta hefur farið ótrúlega vel fram hingað til.“
„Það eru allir í góðu skapi og tilbúnir að skemmta sér,“ bætir hann við.