„Það er mjög margt fólk í bænum,“ segir vakthafandi lögreglumaður hjá lögreglunni á Akureyri í samtali við mbl.is. Fjölskylduhátíðin Ein með öllu hefur farið fram í bænum nú um verslunarmannahelgina líkt og undanfarin ár og var stemningin góð líkt og meðfylgjandi myndir bera með sér.
Talsverður erill var hjá lögreglu í nótt og fengu þrír að gista í fangaklefa vegna tveggja aðskildra líkamsárásarmála. Að sögn lögreglu hafa hátíðarhöldin að öðru leyti gengið vel fyrir sig og eru tjaldsvæðin á Akureyri og í nágrenni nokkuð full.
Met var þá slegið í Lystigarðinum í gær þegar á þriðjaþúsund möffins seldust á tveimur tímum á möffinsbasarnum Mömmur og möffins.
„Það safnaðist rúm milljón á þessum tveimur tímum,“ segir Valdís Anna Jónsdóttir sem er í forsvari fyrir Mömmur og möffins í samtali viðmbl.is í gær. Ágóðinn af möffinssölunni fer í að styrkja fæðingardeild sjúkrahússins á Akureyri.
Einni með öllu lýkur svo með sparitónleikum í kvöld á samkomutúninu við Drottningarbraut, en meðal þeirra sem þar koma fram eru Gréta Salóme, Jónas Sig, Friðrik Dór og Herra Hnetusmjör.