Í annað skipti á tveimur vikum réðst hópur manna vopnaður bareflum á mótmælendur í Hong Kong. Óeirðalögregla tókst á við mótmælendur í dag og beitti táragasi. Talið er að lögreglumenn hafi skotið um eitt þúsund hylkjum af táragasi á mótmælendur síðan mótmæli hófust 9. júní síðastliðinn.
Ástandið í Hong Kong hefur farið síversnandi frá því að mótmælin hófust í júní og er nú orðið gríðarlega eldfimt. Allsherjarverkfall sem lamaði samgöngur skall á í dag og ofbeldið sem aukist hefur síðustu daga hélt áfram.
Carrie Lam ríkisstjóri varar mótmælendur við og segir að hún muni ekki láta undan kröfum þeirra. Hún segir mótmælendur grafa undan lögum og reglu og varaði við því að nú væri Hong Kong „á barmi mjög hættulegrar stöðu“.