Með tóm, lafandi og rosalega krumpuð brjóst

Konan er ekki nógu ánægð með brjóstin sín.
Konan er ekki nógu ánægð með brjóstin sín. mbl.is/colourbox.dk

Þór­dís Kjart­ans­dótt­ir lýta­lækn­ir á Dea Medica svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér svarar hún spurningu frá konu sem er ekki nógu ánægð með brjóstin sín í kjölfar magaaðgerðar. 

Ég átti barn fyrir 9 árum, og þyngdist um rúmlega 30 kíló á meðgöngunni. Ég reyndi í mörg ár að létta mig aftur með afar misheppnuðum árangri, og tókst ekki að ná þessum kílóum af mér fyrr en eftir að ég fór í magaaðgerð. Núna sit ég uppi með brjóst sem eru tóm, lafandi og rosalega krumpuð. Er þetta eitthvað sem húðþétting getur lagað, eða er betra að fara í brjóstalyftingu hjá lýtalækni? Ég veit ekki hvort að það skiptir máli, en ég er 35 ára. 

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica.
Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica. mbl.is/Árni Sæberg

Sæl og takk fyrir spurninguna.

Því miður geta engin krem eða húðmeðferðir lyft tómum og „lafandi“ brjóstum. Ef þú kýst að lagfæra þetta þá er eina leiðin að leita til lýtalæknis og fá brjóstalyftingu með eða án púða. Oft er nægilega mikið af brjóstvef til þess að gera púða óþarfa. Það er erfitt að ná fyllingu í efri hluta brjóstsins til lengri tíma án púða en það verða náttúrulegri brjóst.

Ég minni á að engin aðgerð er áhættulaus, en það sem getur truflað konuna eru örin. Þau eru umhverfis vörtubaug, niður að og í brjóstafellingunni (öfugt T). Þau eru yfirleitt rauð fyrst og hvítna svo, verða með tímanum samlit húðinni. Stundum verða þau rauðari, þykkari og geta valdið konunni óþægindum. En það er sem betur fer sjaldgæft.

Ég ráðlegg þér að fá tíma hjá lýtalækni og skoða þína möguleika með honum. 

Ef annað barn er í burðarliðnum þá myndi ég ráðleggja þér að bíða með aðgerðir á brjóstunum.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Þór­dísi spurn­ingu HÉR. 

mbl.is