Nóttin var róleg hjá lögreglunni á Akureyri, þar sem fjölskylduhátíðin Ein með öllu kláraðist í gærkvöldi. Einn gisti þó fangageymslur vegna ölvunar. Helgin gekk heilt yfir vel.
Mjög margt fólk var í bænum, tjaldsvæðin þétt setin og lauk formlegum hátíðarhöldum með Sparitónleikum á samkomutúninu við Drottningarbraut.
Samkvæmt samtali við lögreglu var einn ökumaður tekinn í morgunsárið, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Lögregla ætlar að fylgjast vel með umferðinni út úr bænum í dag.