Lögreglan á Suðurlandi er með mikið eftirlit við Landeyjahöfn og hafa sjö ökumenn verið stöðvaðir þar undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna frá því að Herjólfur hóf siglingar í nótt.
Allir bílar eru stoppaðir á leið frá höfninni og lögregla vill ítreka að fólki gefst kostur á að blása í áfengismæla í Landeyjahöfn áður en haldið er af stað.
Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar á Suðurlandi á Facebook, en lögregla hvetur ökumenn til ábyrgðar og til að halda ekki af stað út í umferðina nema bæði úthvíldir og allsgáðir.
„Ölvaðir örþreyttir ökumenn eiga ekkert erindi út í umferðina,“ segir lögregla.