Gamla Vestmannaey, skip útgerðarfélagsins Bergs-Hugins, hefur nú fengið nafnið Smáey og einkennisstafina VE-444 eftir að ný Vestmannaey kom til landsins frá Noregi um miðjan síðasta mánuð.
Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar, móðurfélags Bergs-Hugins, að útgerðin hafi áður átt skip sem bar nafnið Smáey, en það var selt árið 2012 til Grenivíkur.
Gert er ráð fyrir að ný Bergey, systurskip nýrrar Vestmannaeyjar, komi til landsins í septembermánuði. Gamla Bergey hefur verið seld Guðmundi Runólfssyni hf. í Grundarfirði og er stefnt að því að skipið verði afhent nýjum eiganda í síðasta lagi í septembermánuði.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri Vestmannaeyjar, sagði í samtali við 200 mílur í júlí að tími hafi verið kominn á endurnýjun skipsins, en horft hafi verið til þess að bæta vinnuaðstöðuna um borð til að auka gæði fisksins, meðal annars með stækkun vinnsludekks. Hann segir Íslendinga jafnan vera of seina að endurnýja skip.
„Það sem mestu máli skiptir er að bæta meðferð á aflanum og auka gæðin. Með nýja skipinu og búnaðinum um borð eigum við að fá fram betri kælingu og aðgerðaraðstaðan er betri.“