Brynja Dan Gunnarsdóttir er með einstlega fallegan fatastíl. Hún segir tískuna hafa allskonar mótandi áhrif. „Tískan er stórskemmtilegt fyrirbæri og gaman að sjá hvernig straumarnir breytast og fara í hringi . Ég klæði mig 100% eftir skapi svo það má segja að stundum ráðist líka skapið af tískunni.“
Hver er uppáhaldsflíkin þín?
„Án efa Chloé skórnir mínir sem ég keypti mér í þrítugsafmælisgjöf. Þeir verða bara fallegri og fallegri og einhvernveginn passa við allt.“
Hverjar eru tískufyrirmyndir þínar?
„Ég elska að fá innblástur frá allskonar fólki. Ég skoða aðallega Instagram og fæ hugmyndir héðan og þaðan úr heiminum. Síðan er alltaf gaman að sjá íslenskar vel klæddar konur sem eru talsvert margar. Eins var ég í Kaupmannahöfn í sumar og varð alveg heilluð af dönskum konum. Þær eru svo náttúrulegar alla daga. Þær eru lítið málaðar, með náttúrulegan hárlit og freknur. Þær upplifðu sumar og sól og eru gjarnan í ljósum kjólum og pilsum á hjólunum sínum. Það heillaði mig hvað þær voru náttúrulegar og lausar við allt „plastlook“.
Hvað myndirðu kaupa þér ef peningar væru ekki hindrun?
„Ég myndi líklegast kaupa mér gamlan G Benz eða beyglaðan Landrover og eyða restinni í eitthvað gott fyrir hjartað og halda síðan af stað á við ævintýranna. En ég elska falleg pils frá til dæmis Dior. Fallegar töskur eru alltaf á óskalistanum, hvort heldur sem er frá Louis Vuitton, Gucci eða Chanel. Eins er ég alltaf að safna fyrir Burberry frakka. Svo finnst mér alltaf gaman að kaupa eitthvað fallegt inn á heimilið. Maður breytist með árunum.“
Hvað er það fallegasta sem þú hefur séð?
„Fallegt er bara tilfinning, brúðarkjólar vinkvenna minna, blá rúskinnskápa sem mamma átti og í minningunni var hún svo ótrúlega falleg. En ef ég ætti að velja einn hlut sem ég sá nýlega væri það Saint Laurent taska sem ég er ótrúlega hrifin af í dag. Svo breytist það kannski dag frá degi.“
Hvað hefur þú aldrei skilið tengt tískunni?
„Útvíðar buxur. Skildi þær ekki hér áður og skil þær ekki í dag. Annars er ég bara til í að prófa flest annað sem kemur að tískunni.“
Hvernig hefur tískan áhrif á þig?
„Þar sem ég starfa í tískuiðnaðinum, þá hefur vinnan vissulega áhrif á mig og er mótandi. Ég ferðast mikið og verð fyrir áhrifum á ferðalögum.
Ég er fljót að aðlagast breyttum aðstæðum og oftar en ekki kem ég heim með eitthvað frá þeim stað sem ég var á. Fataskápurinn minn er því með hlutum héðan og þaðan. Ég kom sem dæmi með fallega kjóla frá Kaupmannahöfn, skyrtu með „rifflum“ framan á frá Austurríki og svo mætti áfram telja.“