Mótmælendur hafa safnast saman á flugvellinum í Hong Kong þar sem þeir hyggjast mótmæla næstu þrjá daga. Krefjast þeir að Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, segi af sér, að sjálfstæð rannsókn verði gerð á framgöngu lögreglu, að hinum handteknu verði veitt náðun og að sjálfsstjórnarsvæðinu verði veittur réttur til að kjósa leiðtoga sína lýðræðislega.
Mótmælendur klæðast svörtu og vilja einna helst vekja athygli erlendra ferðamanna á harðstjórn og lögregluofbeldi sem mótmælendur hafa sætt. Mótmælin vekja óneitanlega athygli og hafa ferðalangar staldrað við og tekið myndir af mótmælendum og þegið bæklinga sem skýra hlið mótmælenda af atburðarrás síðustu vikna.
Mótmælin í Hong Kong hafa nú varað í um tvo mánuði og hafa kínversk stjórnvöld undarfarið orðin óþolinmóðari gagnvart Carrie Lam og ráðamönnum hennar. Mótmælin hafa oftar en ekki orðið ofbeldisfull og táragasi og gúmmíkúlum beitt ítrekað af lögreglu.
Aðgerðirnar eru í óþökk yfirvalda sem hafa þó ekki haft afskipti af mótmælunum enn sem komið er og lögregla hefur ekki verið kölluð til. Starfsemi flugvallarins hefur ekki raskast vegna mótmælanna.
Alls hafa tæplega 600 manns verið handteknir síðan mótmælin hófust 9. júní, en ekki liggur fyrir hve mörgum hefur verið sleppt úr haldi. Þá liggur heldur ekki fyrir hve margir hafa verið ákærðir fyrir óeirðir.