Fiskistofa hefur úthlutað aflahlutdeild í makríl og aflamarki til báta og skipa í kjölfarið, en áður hafði stofan framkvæmd bráðabirgðaúthlutun fyrir 80% af ætluðu aflamarki.
Úthlutunin nú er endanleg þar sem búið er að taka tillit til athugasemda sem bárust fyrir 10. júlí, en bent er á þetta á vef Landssambands smábátaeigenda.
Í B-flokki úthlutunarinnar eru alls 480 bátar, það eru þeir sem höfðu veiðireynslu á árabilinu 2009 -2018. Af þeim eru 377 sem fá minna en tonn í úthlutun, en 34 sem fá meira en 30 tonn.
Aflahlutdeild færabáta er 2,24% sem færir þeim 2.857 tonn í veiðiheimildir á vertíðinni sem nú stendur yfir. Við þær heimildir bætist 4.000 tonna pottur sem eyrnamerktur er smábátum.
Segir á vef LS að gera megi ráð fyrir að um eitt hundrað bátar séu útbúnir til færaveiða á makríl og því ljóst að viðbótarkvóti upp á 4.000 tonn eigi eftir að koma sér vel fyrir aðila sem hafa hug á að hefja veiðar.
Umsóknir sem berast fyrir miðnætti hvers föstudags eru afgreiddar í næstu viku þar á eftir, en hámarksúthlutun hverju sinni eru 35 tonn.
Sambandið vekur athygli á að þeir bátar sem enga úthlutun hafa fengið þurfa að flytja til sín aflamark til að geta hafið veiðar og öðlast þá samtímis rétt til að fá úthlutað viðbótakvóta.