Opnað hefur verið aftur fyrir flugumferð um alþjóðaflugvöllinn í Hong Kong eftir að flugi um hann var aflýst tvo daga í röð. Þúsundir mótmælenda hafa safnast þar saman undanfarna daga og ríkti mikil ringulreið á flugvellinum í gærkvöldi og nótt er kom til átaka milli mótmælenda og óeirðalögreglu.
Gerðu mótmælendur m.a. aðsúg að þremur mönnum, sem reyndust vera kínverskir lögreglumenn. Lögreglan í Hong Kong hefur viðurkennt að lögreglumenn hafi dulbúist sem mótmælendur til að reyna að hafa stjórn á aðstæðum.
Hundruðum flugferða var aflýst í gær eftir að mótmælendur fylltu brottfararsalinn og var í kjölfarið lokað á frekara flug. BBC segir að svo virðist sem flugumferð sé nú að mestu komin í samt lag, þótt enn sé eitthvað um tafir og aflýst flug.
Flugvallaryfirvöld segjast hafa fengið tímabundna heimild til að banna mótmælendur frá vissum svæðum á flugvellinum og muni það eiga við öll svæði sem ekki séu sérstaklega tilgreind til mótmæla.
Mótmælt er nú í Hong Kong tíundu vikuna í röð, en mótmælin hófust vegna óánægju með lagafrumvarp sem átti að heimila framsal fólks til meginlands Kína.
Alþjóðaflugvöllurinn í Hong Kong er einn fjölfarnasti flugvöllur í heiminum. Mótmælin þar hafa að mestu farið friðsamlega fram, utan átökin í gærkvöldi.