Fundu mannhæðarháa mörgæsategund

Tölvumyndin sýnir að mörgæsin var á hæð við manneskju.
Tölvumyndin sýnir að mörgæsin var á hæð við manneskju. Tölvumynd/Canterbury Museum

Leif­ar ri­samörgæs­ar á stærð við mann­eskju hafa fund­ist á Nýja-Sjálandi. Stein­gerð bein mörgæs­ar­inn­ar eru af dýri sem talið er hafa verið um 160 cm á hæð og kann að hafa vegið allt að 80 kg.

Mörgæs­in er tal­in hafa verið uppi fyr­ir um 66-56 millj­ón árum.

BBC seg­ir for­svars­menn Can­ter­bury-þjóðminja­safns­ins í Christchurch hafa bætt ri­samörgæs­inni á lista yfir nú út­dauðar teg­und­ir úr fánu Nýja-Sjá­lands, sem þegar geym­ir páfa­gauka, erni, leður­blök­ur og 3,6 metra háan fugl, svo nefnd­an moa.

„Þetta er ein stærsta mörgæsa­teg­und sem fund­ist hef­ur,“ sagði safn­stjór­inn Paul Scofield  í sam­tali við BBC og kvað búsvæði mörgæs­ar­inn­ar hafa verið á suður­hveli jarðar.

Talið er að mörgæs­irn­ar hafi orðið þetta stór­ar vegna þess að stór sjáv­ar­skriðdýr hurfu úr höf­un­um á svipuðum tíma og risaeðlurn­ar urðu út­dauðar.

„Í um 30 millj­ón ár var síðan tími ri­samörgæs­anna,“ sagði Scofield.

Mörgæs á Suðurskautslandinu. Mynd úr safni.
Mörgæs á Suður­skautsland­inu. Mynd úr safni. AFP

Stærsta núlif­andi mörgæsa­teg­und­in er keis­ara­mörgæs­in, sem verður stærst um 120 cm að hæð.

„Við telj­um dýr­in hafa þró­ast mjög hratt á þess­um tíma,“ út­skýr­ir Scofield. „Vatns­hiti við Nýja-Sjá­land hentaði þeim mjög vel á þeim tíma, þegar hann var um 25°C í stað 8°C nú.“

Nýja-Sjá­land var enn tengt Ástr­al­íu á þeim tíma sem ri­samörgæs­irn­ar voru uppi og Ástr­al­ía var tengd Suður­skaut­inu. Önnur for­sögu­leg mörgæs, „Crossvallia unienwillia“ hef­ur fund­ist á Suður­skaut­inu og eru fæt­ur henn­ar tald­ar hafa gert hann enn heppi­legri til sunds en fæt­ur þeirra mörgæsa sem nú lifa.

mbl.is