Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur stefnt Má Guðmundssyni og Seðlabanka Íslands í kjölfar þess að Seðlabankinn hafnaði kröfu Þorsteins um viðræður um bætur vegna málareksturs Seðlabankans gegn Samherja. Þorsteinn hyggst einnig birta Seðlabankanum stefnu fyrir hönd Samherja.
Þorsteinn krafðist þess að Seðlabankinn greiddi honum fimm milljónir króna í bætur vegna kostnaðar sem féll á hann í málarekstri bankans. Telur bankinn að málsmeðferðin hafi ekki brotið gegn réttindum Þorsteins þannig að það varði bótaskyldu.
Í stefnunni, sem mbl.is hefur undir höndum, fer Þorsteinn fram á fimm milljónir króna í skaðabætur, líkt og hann hefur áður greint frá, en einnig er þess krafist að Seðlabankinn greiði Þorsteini 1,5 milljónir króna í miskabætur, með vöxtum, auk þess sem Seðlabankinn greiði allan málskostnað.
Skaðabótakrafan byggir á lögmannskostnaði í tengslum við sekt Seðlabankans sem síðar var hnekkt. Í stefnunni segir að með upphæðinni sé „síst of langt seilst af hans hálfu“.
Í stefnunni segir að ekki leiki vafi á því að margra ára rannsóknaraðgerðir stefnda sem og stjórnvaldssekt og opinber umræða um hana hafi laskað orðspor Þorsteins og því eigi hann rétt á miskabótum af þeim sökum.
Þorsteinn byggir skaðabóta- og miskabótarkröfur sínar jafnframt á því að Seðlabankinn hafi með rannsóknum og töku stjórnvaldsákvarðana í máli Þorsteins og Samherja valdið honum fjárhagslegu tjóni og miska með saknæmum og ólögmætum hætti.
Krafan er jafnframt byggð á því að háttsemi Seðlabankans gagnvart Samherja hafi allt frá upphafi verið ólögmæt og verið viðhöfð af ásetningi eða í það minnsta af gáleysi, það er með saknæmum hætti.
Þorsteinn sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að hann vilji birta Seðlabankanum stefnuna áður en Már Guðmundsson, fráfarandi Seðlabankastjóri, lætur af störfum. „Við höfum engan áhuga á að birta nýjum Seðlabankastjóra þessa stefnu,“ sagði Þorsteinn.
Stefnan verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. september næstkomandi.