Starfsmenn Slippsins á Akureyri eru nú í óðaönn við að ganga frá nýju millidekki í skipið. Verður millidekkið um þriðjungi stærra og að ýmsu leyti fullkomnara en það sem var í gömlu Vestmannaey, sem nú hefur hlotið nafnið Smáey.
Meðal annars verða á millidekkinu tveir stærðarflokkarar og krapakerfi frá KAPP ehf., en þegar hafa starfsmenn Vélsmiðjunnar Þórs í Vestmannaeyjum sett upp lestarfæriband um borð.
Lögð er áhersla á að vinnuaðstaða á dekkinu verði öll hin besta og að líkamlegt álag á áhöfnina verði í lágmarki.
Vestmannaey hélt norður til Akureyrar 6. ágúst og gert er ráð fyrir að skipið geti hafið veiðar um miðjan september.