Í baráttu gegn falsfréttum um Hong Kong

Mótmæli hafa staðið yfir vikum og mánuðum saman í Hong …
Mótmæli hafa staðið yfir vikum og mánuðum saman í Hong Kong. AFP

Internetrisarnir Facebook og Twitter vinna nú hörðum höndum að því að koma í veg fyrir flóð misvísandi upplýsinga um mótmælin í Hong Kong.

Talið er að um herferð kínverskra stjórnvalda sé að ræða, ætlaða til þess að valda sundrung meðal mótmælenda.

Twitter kveðst þegar hafa eytt 936 aðgöngum sem eigi uppruna sinn á meginlandi Kína og séu hluti samstillts átaks til þess að grafa undan lögmæti og pólitískri afstöðu mótmælahreyfingarinnar.

Facebook segist hafa, í kjölfar ábendingar frá Twitter, fjarlægt sjö vefsíður, þrjá hópa og fimm aðganga, þar sem fréttum af mótmælunum í Hong Kong hafi ítrekað verið deilt. Þrátt fyrir að stofnendur aðganganna hafi reynt að halda persónuupplýsingum sínum leyndum hafi það fengist staðfest að um aðila tengda kínversku ríkisstjórninni væri að ræða.

mbl.is