Ekki léttvæg ákvörðun

HB Grandi heitir nú Brim.
HB Grandi heitir nú Brim. mbl.is/Hjörtur

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill framkvæmdastjóra Gildis lífeyrissjóðs, segir í samtali við Morgunblaðið að ákvörðunin um sölu á 8,49% prósenta hlut lífeyrissjóðsins í útgerðarfélaginu Brimi (áður HB Granda) í gær til FISK Seafood, hafi ekki verið léttvæg, en hún hafi verið tekin í kjölfar kaupa Brims á sölufélögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur fyrir helgi. Útgerðarfélag Reykjavíkur er í eigu forstjóra Brims, Guðmundar Kristjánssonar.

Á hluthafafundi 15. ágúst greiddi Gildi atkvæði á móti kaupum á sölufélögunum. Kaupin voru engu að síður samþykkt með um 90% greiddra atkvæða á fundinum. „Þetta voru ekki fyrstu viðskipti Brims við tengdan aðila, og okkur fannst þetta vera orðin helst til umfangsmikil viðskipti við félag í eigu forstjórans og stærsta hluthafans. Það sem miklu máli skiptir í þessu tilfelli er hvað kaupin á sölufélögunum leiða til mikillar aukningar á hlut Útgerðarfélags Reykjavíkur í félaginu, og þar með til þrenginga á eignarhaldi Brims, sem olli okkur áhyggjum,“ segir Davíð, en Gildi á áfram 0,2% hlut í Brimi eftir kaupin.

Fyrri viðskiptin sem Davíð vísar til hér að ofan voru kaup Brims á útgerðarfélaginu Ögurvík af Útgerðarfélagi Reykjavíkur.

Mögulega mistök

Kom ekki til greina að selja hlutinn í Brimi í kjölfar viðskiptanna með Ögurvík í fyrra?

„Nei, en það mál vakti vissulega ýmsar spurningar. Við samþykktum þau kaup að endingu á sínum tíma. Eftir á að hyggja má hins vegar velta fyrir sér hvort það hafi verið mistök, þ.e. upp á fordæmið að gera um viðskipti milli tengdra aðila.“

Kemur til greina að kaupa aftur hlut í Brimi miðað við núverandi stjórnarhætti í félaginu?

„Ég get ekki fullyrt neitt um það en miðað við óbreytta stöðu mála þá á ég ekki von á því.“

Aðspurður segir Davíð að verðið sem fékkst fyrir hlutinn hafi verið ásættanlegt, og sambærilegt því sem Gildi bauðst í yfirtökutilboði sem Brim gerði hluthöfum HB Granda 28. maí árið 2018, upp á 34,3 krónur fyrir hvern hlut, að teknu tilliti til arðgreiðslna. Davíð staðfestir að greiðsla fyrir hlutinn hafi verið í formi hlutabréfa í Högum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: