Hvað er að gerast í Amazon?

AFP

Þúsund­ir skógar­elda loga í Amazon, stærsta regn­skógi heims, um þess­ar mund­ir og hafa eld­arn­ir í Amazon í Bras­il­íu ekki verið fleiri í næst­um ára­tug.

Svæðin sem verst hafa orðið úti vegna skógar­elda það sem af er ári eru í ríkj­un­um Roraima, Acre, Rondônia og Amazon­as, en í Amazon­as, stærsta ríki Bras­il­íu, hef­ur neyðarástandi verið lýst yfir.

Skógar­eld­arn­ir hafa vakið mikla at­hygli um heim all­an og kepp­ist fræga fólkið, til jafns við almúg­ann, um að deila mynd­um af og tjá sig um ástandið í Amazon. Komið hef­ur í ljós að marg­ar mynd­anna sem net­verj­ar deila eru raun­ar gaml­ar eða jafn­vel ekki tekn­ar í Bras­il­íu.

En hversu slæmt er ástandið í raun og veru? 

Sam­kvæmt gögn­um Geim­rann­sókn­ar­stofn­un­ar Bras­il­íu hef­ur skógar­eld­um fjölgað um 85% frá sama tíma­bili árið 2018, en sam­kvæmt op­in­ber­um töl­um hafa 75.000 skógar­eld­ar kviknað það sem af er ári, og meira en helm­ing­ur þeirra í Amazon. Á sama tíma í fyrra höfðu 40.000 eld­ar verið skráðir.

Skógar­eld­ar eru al­geng­ir á þurrka­tíma­bil­inu í Amazon, sem stend­ur yfir frá júlí og fram í októ­ber. Þeir geta kviknað af nátt­úru­leg­um sök­um, svo sem vegna eld­inga, en einnig vegna hreins­un­ar skóg­lend­is bænda og skóg­ar­höggs­manna í nafni land­búnaðar.

Um­hverf­issinn­ar segja stefnu Jair Bol­sonero for­seta um að kenna, að í henni sé hvatt til skógareyðing­ar af þessu tagi. Bol­sonero hef­ur hins veg­ar svarað í sömu mynt og kennt óop­in­ber­um sam­tök­um um aukn­ingu skógar­elda. Reynd­ar hef­ur hann síðan dregið í land og sagst eng­ar sann­an­ir hafa fyr­ir full­yrðing­um sín­um þess efn­is.

AFP

Reyk­ur frá skógar­eld­un­um sem loga í Amazon hef­ur teygt anga sína víða, jafn­vel alla leið til aust­ur­strand­ar Bras­il­íu í Atlants­hafi, auk þess sem hann hef­ur valdið myrkri í Sao Pau­lo, borg í 3.200 kíló­metra fjar­lægð.

228 millj­ón tonn kolt­ví­sýr­ings losnað út í and­rúms­loftið

Þá hafa eld­arn­ir losað mikið magn kolt­ví­sýr­ings út í and­rúms­loftið, eða um 228 millj­ón tonn það sem af er ári, mesta magn síðan 2010. Þá losa eld­arn­ir einnig mik­inn kol­sýr­ing, eitraða, lykt­ar­lausa loft­teg­und sem mynd­ast þegar kol­efni brenn­ur í ónógu súr­efni, sem dreifst hef­ur um rómönsku am­er­íku.

Amazon-regn­skóg­ur­inn er heim­ili þriggja millj­óna dýra- og plöntu­teg­unda, auk millj­ón frum­byggja, og gegn­ir mik­il­vægu hlut­verki í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um, en skóg­ur­inn bind­ur um millj­ón­ir tonna kol­efna ár hvert.

Þegar tré regn­skóg­ar­ins eru höggv­in eða brennd losn­ar hins veg­ar kol­efnið sem þau bundu aft­ur út í and­rúms­loftið, auk þess sem það gef­ur auga­leið að með færri trjám minnk­ar geta skóg­ar­ins til þess að binda kol­efni.

Um­hverf­is­stofn­un Bras­il­íu seg­ir að rekja megi auk­inn fjölda skógar­elda beint til skógareyðing­ar af ásettu ráði, en Geim­rann­sókn­ar­stofn­un Bras­il­íu sendi út 10.000 viðvar­an­ir vegna skógareyðing­ar bara í júlí­mánuði, og jókst hún um 278% til sam­an­b­urðar við sama mánuð í fyrra.

Ekki eldur heldur kapítalismi, stendur á þessu skilti.
Ekki eld­ur held­ur kapí­tal­ismi, stend­ur á þessu skilti. AFP

Roramia er það ríki sem hef­ur séð mesta fjölg­un skógar­elda, en þeim hef­ur fjölgað um 141% miðað við meðaltal ár­anna 2015 til 2018. Í Amazon­as hef­ur þeim fjölgað um 81%, 138% í Acre og 115% í Rondônia.

Los­un kolt­ví­sýr­ings náði há­marki 2004

En þrátt fyr­ir að skógar­eld­arn­ir hafi náð há­marki síðastliðinna tíu ára benda gögn frá Geim­rann­sókn­ar­stofn­un Banda­ríkj­anna, NASA, til þess að fjöldi skógar­elda sé ná­lægt meðaltali síðustu 15 ára, auk þess sem gögn um los­un kolt­víoxíðs, sem notuð eru til að mæla skógar­elda, sýna að los­un hafi verið mun meiri á fyrsta ára­tug 21. ald­ar­inn­ar og náð há­marki árið 2004 þegar los­un­in mæld­ist rúm­lega 400 millj­ón tonn.

Þá er Bras­il­ía ekki eina landið sem Amazon-regn­skóg­ur­inn nær til sem glím­ir við auk­inn fjölda skógar­elda þetta árið. T.a.m. hef­ur skógar­eld­um fjölgað um 114% í Bóli­víu, 104% í Perú og 145% í Guy­ana.

Um­fjöll­un BBC

mbl.is