Lögregluþjónn í Hong Kong hleypti skoti af byssu í mótmælunum sem fram fóru í borginni í dag. Er það í fyrsta sinn sem hleypt er af alvöru byssu í mótmælunum, sem staðið hafa yfir í þrjá mánuði.
Lögreglan hefur hingað til beitt táragasi og gúmmíkúlum til að hafa hemil á og sundra mótmælendum. Í dag greip hún einnig til þess ráðs að sprauta á þá vatni með vatnskanónum.
„Samkvæmt mínum skilningi hleypti samstarfsfélagi minn af byssu rétt í þessu... það fyrsta sem ég heyrði var að það hefði verið lögreglumaður sem hleypti af,“ sagði lögreglumaður við fréttamiðla skömmu eftir að skotinu var hleypt af.