Smábátafélagið Hrollaugur á Höfn skorar á Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra að leyfa strandveiðar fram í september, eða þar til því heildaraflamarki sem úthlutað var til strandveiða verði náð.
Þetta kemur fram á vef félagsins. Þar segir að gæftir hafi verið misjafnar í kringum landið í sumar og gengi svæða misjafnt vegna veðra og vinda, auk mismunandi fiskgengdar eftir svæðum.
„Þess vegna liggur fyrir að eitthvað mun standa eftir af áætluðu aflamarki til strandveiða fyrir sumarið 2019,“ segir í áskoruninni. Hver dagur sem hægt sé að róa til strandveiða sé strandveiðiútgerðum og byggðum landsins mikilvægur.
Að óbreyttu lýkur tímabili strandveiða nú í lok mánaðar.
„Lengd veiðitímabilsins er sett í lög og því þarf að byrja á að breyta lögum eigi eitthvað annað að breytast. Og það er ekki gert í einni svipan. En þetta verður endurskoðað á næsta ári, ekki síst í ljósi þess að nú er það að gerast tvö ár í röð að við náum ekki að nýta þær heimildir sem okkur eru fengnar,“ sagði Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, við 200 mílur í júlí.