Segir ofbeldið í mótmælum orðið alvarlegra

Ofbeldið í mótmælunum í Hong Kong er að verða alvarlegra, en stjórnvöld eru þess þó fullviss að þau geti sjálf tekið á málinu, sagði Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, í dag. Lam tjáði sig þá í fyrsta skipti við fjölmiðla eftir átök helgarinnar, en þá skaut lögregla viðvörunarskoti og beitti vatnsbyssum gegn mótmælendum sem köstuðu múrsteinum og bensínsprengjum.

Fimmtán lög­reglu­menn særðust í mót­mæl­un­um og tug­ir mót­mæl­enda voru hand­tekn­ir, þar á meðal tólf ára barn. 

Hong Kong stendur nú í alvarlegustu stjórnarkreppu sem sjálfstjórnarhéraðið hefur staðið frammi fyrir frá því Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong árið 1997.

Kínversk yfirvöld hafa líka gefið út skýra viðvörun um að þau útiloki ekki að valdi verði beitt.

Lam sagðist þó í dag ekki vera búin að gefa upp vonina um að hefja samræður við mótmælendur. Ekki væri þó tímabært að hefja óháða rannsókn á ástandinu, en það er ein helsta krafa mótmælenda.

„Við þurfum að undirbúa sættir í samfélaginu með því að ræða við ólíka hópa. Við viljum binda endi á þetta óreiðuástand í Hong Kong,“ sagði Lam.

Frekari mótmæli hafa verið skipulögð næstu daga og vikur og er slíkt nokkur ögrun við stjórnvöld í Kína sem vilja mótmælunum lokið fyrir sjötugsafmæli Alþýðulýðveldisins Kína 1. október.

Kveikjan að mótmælunum var óánægja með lagafrumvarp sem átti að heimila framsal brotamanna til meginlands Kína. Þau hafa nú staðið yfir í 12 vikur samfleytt og hafa þróast yfir í kröfur um aukið lýðræði í sjálfstjórnarhéraðinu.

Til þessa hafa yfirvöld neitað að verða við fimm lykilkröfum mótmælendanna sem eru að framsalsfrumvarpið verði afturkallað, að óháð rannsókn verði gerð á mótmælunum og meintu lögregluofbeldi, að hætt verði að lýsa mótmælunum sem „óeirðum“, fallið verði frá sektum gegn þeim sem eru handteknir og að pólitískar endurbætur hefjist að nýju.

mbl.is