Iceland Seafood International hagnast um rúman hálfan milljarð á fyrri helmingi árs

Bjarni Ármannsson er forstjóri Iceland Seafood International.
Bjarni Ármannsson er forstjóri Iceland Seafood International. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Hagnaður Iceland Seafood International á fyrstu sex mánuðum ársins nam 4,2 milljónum evra, eða um 577 milljónum króna, samanborið við 1,7 milljóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, sem stefnir að skráningu á aðallista Kauphallarinnar á fjórða ársfjórðungi.

Alls námu tekjur fyrirtækisins 232,1 milljón evra á fyrstu sex mánuðum ársins og nemur eigið fé félagsins 62 milljónum evra.

Bjarni Ármannsson er forstjóri fyrirtækisins. Í tilkynningu segir hann að fyrirtækið sé afar stolt af þessari rekstrarniðurstöðu og að fyrstu mánuðir hans í starfi hafi verið viðburðaríkir.

mbl.is