Brim hagnaðist um 1,5 milljarða

Guðmundur Kristjánsson, forstjóriBrims hf.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóriBrims hf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagnaður Brims hf., áður HB Granda hf., á öðrum ársfjórðungi var 6,8 milljónir evra, samanborið við 3,9 milljónir evra á á fyrsta árs­fjórðungi. Hagnaður fyritækisins á fyrri helming ársins er því 10,7 milljónir evra, eða sem nemur tæpum 1,5 milljörðum króna. 

Rekstrartekjur fyrirtækisins á fyrri helmingi árs 2019 námu 110,1 milljón evra, eða sem nemur tæpum 15,2 milljörðum króna, samanborið við 100 milljónir evra árið áður. EBITDA var 23,2 milljónir evra eða 21,1% af rekstrartekjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Brim hf.

Á öðrum ársfjórðungi námu rekstrartekjur samstæðunnar 52,1 milljón evra og EBITDA nam 13,5 milljónum evra.

„Á réttri leið“

„Afkoman á fyrri hluta ársins bendir til þess að við séum á réttri leið. Með kaupunum á Ögurvík á síðasta ári fjárfestum við í auknum veiðiheimildum sem meðal annars skila sér nú í bættri afkomu félagsins. Brim er stórt félag með mikla fjármuni undir og áhættan talsverð vegna utanaðkomandi sveiflna,“ er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brims hf., í tilkynningu. Þar segir hann einnig:

„Arðsemin verður að vera góð til að borga skuldir og fjárfesta í nýjum og fullkomnum framleiðslutækjum bæði í landi og úti á sjó. Þá megum við heldur ekki gleyma því að það kostar sitt að tryggja okkur aðgang að mörkuðum sem greiða gott verð fyrir afurðir okkar. Það eru víða tækifæri til að gera betur og ég er sannfærður um að við getum nýtt okkur þau.“

Heildareignir 650 milljónir evra

Heildareignir félagsins námu tæplega 650 milljónum evra í lok júní 2019, þar af voru fastafjármunir 532,5 milljónir evra og veltufjármunir 117,4 milljónir evra.

Eigið fé var 276,2 milljónir evra og var eiginfjárhlutfall 42,5% í lok júní. Heildarskuldir félagsins námu 373,7 milljónum evra í júnílok.

Opinn kynningarfundur um afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi verður haldinn föstudaginn 30. ágúst klukkan 8:30 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1. Guðmundur Kristjánsson forstjóri mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

mbl.is