Þurfum alltaf að bera loftslagsgleraugun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði fundinn í gær. Samþykkt var á …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði fundinn í gær. Samþykkt var á fundinum að VG skuli hafa umhverfisáhrif til hliðsjónar við alla stefnumörkun og ákvarðanatöku. Ljósmynd/Steinþór Rafn Matthíasson

„Það er mik­il­vægt að við höf­um lofts­lags­gler­aug­un alltaf á lofti og flétt­um inn í alla okk­ar stefnu­mót­un.“ Þetta seg­ir Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráðherra og formaður Vinstri-grænna, í sam­tali við mbl.is, en hún er stödd á flokks­ráðsfundi VG í Öræf­um. Álykt­un þess efn­is að öll stefnu­mót­un flokks­ins skuli taka mið af lofts­lags­vánni og ákv­arðanir tekn­ar með hliðsjón af um­hverf­isáhrif­um var samþykkt á fund­in­um. 

Hann hófst í gær á glærukynn­ingu Katrín­ar, en nú er fund­ar­starfi lokið, álykt­un út­gef­in og for­sæt­is­ráðherra á leið í göngu.

Varla telst til tíðinda að Vinstri-græn álykti um lofts­lags­vána, en Katrín seg­ir aðspurð að það séu ný­mæli að hugað verði að lofts­lags­mál­um við stefnu­mörk­un á öll­um sviðum. Slíkt hafi gefið góða raun í bar­átt­unni fyr­ir kynja­jafn­rétti þar sem hlut­ur kynj­anna er víða hafður bak við eyrað hvert sem umræðuefnið er.

Kátt á hjalla.
Kátt á hjalla. Ljós­mynd/​Steinþór Rafn Matth­ías­son

Í stjórn­arsátt­mála seg­ir að unnið skuli að því að „gera inn­an­lands­flug að hag­kvæm­ari kosti fyr­ir íbúa lands­byggðanna“. Niður­greiðsla inn­an­lands­flugs var á stefnu­skrá Fram­sókn­ar­flokks­ins fyr­ir kosn­ing­ar og komust þær hug­mynd­ir aft­ur til umræðu í vik­unni að frum­kvæði þing­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Spurð hvernig þau áform fari sam­an við lofts­lags­stefn­una seg­ir Katrín að mik­il­vægt sé að horfa á heild­ar­kol­efn­is­spor sam­gangna við gerð sam­göngu­áætlun­ar og má skilja sem svo að draga þurfi úr los­un ann­ars staðar.

Ekki er hlaupið að því að reikna út kol­efn­is­spor sam­gangna frek­ar en annarra at­hafna ætli menn að rekja spor allra aðfanga. Þá bend­ir Katrín á að taka þurfi með í reikn­ing­inn fót­spor annarra val­kosta, svo sem að keyra einn í bíl lands­hluta á milli.

Norður­slóðir séu lág­spennusvæði

Í álykt­un flokks­ráðs var einnig lýst yfir and­stöðu við aukna víg­væðingu á norður­slóðum, sem og auk­in hernaðar­um­svif á Suður­nesj­um. Seg­ir í álykt­un­inni að þau verði ekki slit­in úr sam­hengi við aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu og varn­ar­samn­ing­inn við Banda­rík­in, sem VG hafi staðið gegn frá upp­hafi.

Katrín seg­ir að þótt ut­an­rík­is­stefna Íslands og stefna VG fari ekki sam­an er kem­ur að aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu séu þær samróma um að norður­slóðir eigi að vera svo­kallað lág­spennusvæði þar sem lít­il hernaðar­um­svif séu.  

Flokks­ráð fagn­ar inn­leiðingu þriggja þrepa skatt­kerf­is, en til stend­ur að bæta við nýju lág­tekjuþrepi upp á 32,94%, fjór­um pró­sentu­stig­um lægra en lægra þrep nú­gild­andi kerf­is. Verði það til þess að auka jöfnuð í sam­fé­lag­inu. 

Þá sé það ánægju­efni að til standi á ný að lengja fæðing­ar­or­lof úr níu mánuðum í eitt ár, en ákvörðun um það var fyrst tek­in í tíð rík­is­stjórn­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Vinstri-grænna en síðar fallið frá áformun­um er rík­is­stjórn Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar tók við völd­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina