Á annan tug ferða aflýst frá Hong Kong

Starfsemi alþjóðaflugvallarins í Hong Kong raskaðist enn eina ferðina í dag þegar á annan tug ferða var aflýst eftir að þúsundir mótmælenda lokuðu vegum að flugvellinum, sem er einn sá fjölfarnasti í heiminum

Öllum ferðum flugvallarhraðlestar hefur verið aflýst þar sem svartklæddir mótmælendur hafa sett upp vegatálma og hindranir við götur sem liggja að flugstöðvarbyggingum. Lögreglan hefur herjað á mótmælendur í neðanjarðarlestum og segist vera að bregðast við „róttækum mótmælendum“. Lögreglumennirnir eru vopnaðir kylfum, táragasi og gúmmíkúlum. Óljóst er hvort farþegar lestanna hafi verið þátttakendur í mótmælunum eða ekki. 

Merkja mótmælendur með lituðu vatni

Þetta er þrettánda helgin í röð sem mótmælendur safnast saman á götum Hong Kong til að mótmæla og aukinn þungi hefur verið í mótmælunum sem og viðbrögðum lögreglu. 900 manns hafa verið handteknir frá því að mótmælin hófust í júní. 

Lögreglan hefur sprautað lituðu vatni á mótmælendur sem hunsuðu bann sem sett var á mótmæli helgarinnar, sem áttu að marka það að fimm ár eru liðin frá því að íbú­ar mót­mæltu af­skipt­um kín­verskra yf­ir­valda af kosn­ing­um í sjálfs­stjórn­ar­héraðinu. 

Kveikj­an að mót­mæl­un­um var laga­frum­varp sem heim­ila átti framsal brota­manna til meg­in­lands Kína. Mót­mæl­in hafa síðan þró­ast upp í kröfu um aukið lýðræði.

Mót­mæl­in um helgina eru sögð skorta leiðtoga. Á föstudag voru þekkt­ir aðgerðasinn­ar hand­tekn­ir, Jos­hua Wong og Agnes Chow, og segja mann­rétt­inda­hóp­ar að þetta sé í sam­ræmi við aðgerðir kín­verskra stjórn­valda – að fjar­lægja þá sem gætu reynst óþægur ljár í þúfu.

Mótmælendur fela sig nú fyrir öryggismyndavélum undir þúsundum regnhlífa til að forðast handtöku. Lögreglan hefur gripið til þess ráðs að sprauta lituðu vatni á mótmælendur til að aðskilja þá frá þeim sem ekki taka þátt í mótmælunum.

Þrettándu helgin í röð safnast mótmælendur saman á götum Hong …
Þrettándu helgin í röð safnast mótmælendur saman á götum Hong Kong til að mótmæla og aukinn þungi hefur verið í mótmælunum sem og viðbrögðum lögreglu. AFP
mbl.is