„Hlusta? Það er aldrei hlustað á okkur. Það er vandamálið,“ segir Sigurður Haraldsson, sem sótti mótmæli Orkunnar okkar á Austurvelli í hádeginu og lét mikið á sér bera. Hann var með gjallarhorn, sem lögreglan er búin að hirða af honum einu sinni það sem af er degi, og beindi sírenuvæli og slagorðum inn um inngang Alþingis eins og sjá má á myndskeiðinu hér að ofan.
Á að giska 60-70 manns komu saman á Austurvelli til mótmæla í hádeginu. Sigurður segir að baráttu Orkunnar okkar sé ekki lokið. „Það er verið að stela auðlindum. Það er ekki spurning að stórir aðilar í þjóðfélaginu ráða hér algjörlega öllu,“ sagði Sigurður við blaðamann.
Hann segist hafa komið víða við í pólitíkinni, staldrað stutt við í Pírötum og sömuleiðis verið rekinn úr Flokki fólksins. „Sá flokkur er ekki svarið,“ segir Sigurður. Hann segir fólk þurfa að sameinast á annan hátt en í starfi stjórnmálaflokka og að lýðræðið á Íslandi virki ekki.
„Flokkakerfið er það sem á okkur, en ekki lýðræðið. Flokkakerfið virkar þannig að stóru flokkarnir taka litlu flokkana og stjórna þeim algjörlega. Ef einhver ætlar sér að breyta einhverju, þá er hann bara settur út í horn. Það eru mörg dæmi um þetta; Frosti Sigurjónsson, Lilja Mósesdóttir, Birgitta Jónsdóttir,“ segir Sigurður.
Orkupakkinn var samþykktur núna fyrir hádegi með 46 atkvæðum gegn 13. Einn þingmaður ríkisstjórnarflokkanna greiddi atkvæði gegn málinu, en það var Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi. Sigurður segist efast um að hann sé heill í andstöðu sinni við orkupakkann.
„Það eru þarna örfáir sem standa með okkur virkilega, en hins vegar eru líka einhverjir þarna sem eru að kaupa sér atkvæði, eins og Ásmundur Friðriksson,“ segir Sigurður. Hann segir að Ásmundur hafi sýnt andstæðingum orkupakkans bæði vandlætingu og hroka.
„Það er margbúið að sýna sig að þessi maður vinnur ekki með okkur,“ segir Sigurður.